140. löggjafarþing — 115. fundur,  7. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[18:22]
Horfa

Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Það er einkennilegt á hv. Alþingi hvað menn teygja oft lopann um skilning sem er svo augljós. Síðustu hv. ræðumenn töluðu um frumuppsetningu, hvernig eignaraðild hefði orðið til o.s.frv. Ég veit ekki betur en að nánast allir þingmenn á Alþingi Íslendinga séu sammála um að auðlindin í hafinu, fiskurinn, sé sameign og eign allra landsmanna, þjóðarinnar. Hvort þar er fjallað um tæknilega lögfræðileg atriði skiptir ekki máli í sjálfu sér heldur að rétturinn og eignin er hjá þjóðinni allri og á að vera það. Síðan geta verið margar leiðir til að nýta þessa eign. Frá því að svokallað kvótakerfi var sett á hefur lykillinn í kerfinu verið að hluti aflans væri framseljanlegur, leigjanlegur, þó að margir telji, og ég er einn þeirra, að það megi framselja of hátt hlutfall. Ég tel að það eigi að lækka það niður í að minnsta kosti 75%, jafnvel 80%. Þessi atriði skipta miklu máli í því sem við erum að véla um.

Það kom fram greinilegur misskilningur og þekkingarleysi sem er ekkert venjulegt hjá hv. þm. Helga Seljan — Helga Hjörvar, fyrirgefðu, forseti. Það er svona þegar maður var á sínum tíma á þingi með góðum mönnum eins og Helga Seljan, þá rifjast þeir upp. Hann spurði hvort ekki væri þá skynsamlegt að allt þetta dæmi byggðist á uppboði á aflaheimildum án þess að tala nokkuð um tímasetningar eða annað. Það þýðir ekki að spyrja svona eins og um sé að ræða tómstundaveiði. Menn geta ugglaust spurt svona án þess að það raski nokkurri skynsemi ef um er að ræða einn dag í á, kannski tvo eða þrjá, en ekki í atvinnugrein sem þarf að skipuleggja sig til langs tíma vegna fjárfestinga, markaða o.fl. Mann rekur í rogastans þegar svona spurningar eru bornar upp í alvöru og líka þegar aðrir þingmenn eru spurðir hvað sé heppilegt gjald. Hvað er heppilegt gjald? Það eina sem ræðst í þeim efnum er að menn skoði ofan í kjölinn, fari ofan í saumana á því hvaða möguleikar eru á gjaldtöku þannig að viðkomandi atvinnugrein geti haldið áfram við eðlilegar aðstæður, eðlilegan arð, eðlilega endurnýjun o.s.frv. Þessi umræða er öll í tómri vitleysu, tómri tjöru, og það er alveg skelfilegt þegar svona er fjallað um þá atvinnugrein landsins sem er burðarásinn í velferðarkerfi Íslendinga.

Það er líka merkilegt að upplifa það að í dag var mjög sérstæður fundur á Austurvelli. Nær hundrað skipa floti landsmanna úr öllum landsfjórðungum kom siglandi til höfuðborgarinnar, til Reykjavíkurhafnar, líklega 70–80 skip, með um 1.300 sjómenn til að mæta til fundar á Austurvelli. Sjómenn af öllum þessum flota mættu mjög vel. Þar fyrir utan var kannski á fundinum heldur meiri fjöldi, ugglaust margir tengdir sjómönnum en einnig þeir sem vilja sýna þeim samstöðu. Það má ætla að þarna hafi verið um 3.500–4.000 manns. Gamall þjóðhátíðarhaukur sem hefur stjórnað og verið á þjóðhátíðum í áratugi flaskar ekki á að meta þann fjölda.

Á þessum stóra fundi var lítill hópur sem vildi ekki leyfa sjómönnum, landverkafólki, útvegsmönnum og talsmönnum sveitarfélaga að flytja sjónarmið sín á fundinum. Það er fólkið sem hefur á fyrri missirum verið á fundum á Austurvelli, fengið frið til að tjá sig og lagt höfuðáherslu á að menn fengju að segja sína skoðun. Þetta fólk, virðulegi forseti, stóð núna í yfir 70 manna hópi og baulaði og hrópaði ókvæðisorð, reyndi að trufla fundinn. Hvað er að þessu fólki? Ekki ætla ég að svara því en það er eitthvað mikið að.

Hins vegar er jafnframt ástæða til að spyrja: Hvað kemur til að fréttastofa Ríkisútvarpsins talar um þennan fund eins og eitthvert hjóm? Í fjögur-fréttum útvarpsins var sagt frá því að það hefðu verið nokkrir sjómenn á Austurvelli en aðallega hefðu verið mótmælendur sem voru að mótmæla LÍÚ og sjómönnum og landverkafólki og sveitarfélögum í landinu. Hvaða kjaftæði er þetta? Hvað er að fréttastofu Ríkisútvarpsins að leyfa sér svona bull og þvaður?

Það er komið að því að Alþingi Íslendinga fjalli um fréttastofu Ríkisútvarpsins og þær villur sem hún leggur fram í fréttaflutningi fyrir landsmenn. Þetta er einfaldlega ekki hægt. Allir ræðumenn á fundinum á Austurvelli í dag voru fulltrúar landverkafólks, sjómanna, sveitarfélaga og útgerðarmanna. Allir lögðu þeir fram kröfu um að ríkisstjórn Íslands drægi til baka þau frumvörp sem í umræðunni eru um breytingar á fiskveiðistjórn, hver einasti ræðumaður, og svo hlær Ríkisútvarpið að þessu. 1.300 sjómenn koma til Reykjavíkur, til höfuðborgarinnar, í fyrsta skipti í sögu höfuðborgarinnar, í fyrsta skipti í sögu heimsins siglir slíkur fjöldi skipa inn í höfn höfuðborgar til að mótmæla ríkisstjórn Íslands og það var smáfrétt í útvarpinu. Hverjum hentaði það? Hvað er að þessu liði?

Ef þeir hv. þingmenn sem styðja ríkisstjórnina hefðu einhvern metnað ættu þeir eftir svona fund þar sem afl Íslands var að tala, fólkið sem skapar grunninn í þjóðfélagi okkar, að segja af sér á stundinni og biðjast afsökunar. Þetta er svo alvarlegt mál. Nei, það var bara skemmtisigling hjá 70–80 stærstu fiskiskipum landsins að sigla um langan veg til höfuðborgarinnar til að mótmæla niðurrifi ríkisstjórnarinnar á landinu öllu, byggðunum, vinnu þessa fólks, öllu því sem fólkið treystir á.