140. löggjafarþing — 115. fundur,  7. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[18:32]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Björn Valur Gíslason) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég get ekki gert að því að hv. þm. Árna Johnsen, sem hélt hérna skammarræðu yfir Ríkisútvarpinu, hafi ekki líkað fréttaflutningurinn, hann vill eflaust fá að hafa einhver áhrif á hann. Það er ekki það sem við ræðum hér, við ræðum hér frumvarp um veiðigjöld. Þingmaðurinn getur vissulega haft ákveðnar skoðanir á því hvort fréttir af því séu honum samboðnar eða ekki en frumvarpið stendur þrátt fyrir það.

Hv. þingmaður nefndi það í ræðu sinni áðan að erfitt væri að segja til um hve há veiðigjöld, eða auðlindagjöld eða hvað sem við köllum þau, ættu að vera í sjávarútvegi eða hvernig ætti að taka tillit til þess, sjávarútvegurinn eða greinin þyrfti að hafa eðlilegan arð af rekstri sínum og starfsemi þannig að eðlileg endurnýjun yrði og þá væntanlega af búnaði, skipum og slíku. Ég er algjörlega sammála hv. þingmanni.

Það er líka kjarni þess frumvarps sem við ræðum í dag að veiðigjaldið verði svo nátengt afkomunni og arðseminni í greininni að það fylgi því mjög hratt eftir hvort sem vel gengur eða illa þannig að þjóðin, eigandi auðlindarinnar, njóti þá þess arðs sem þar er og að arðsemin verði eftir í greininni að langstærstum hluta þannig að hún geti endurnýjað sig og rekið sig eðlilega.

Það hefur ekki verið þannig á undanförnum árum og áratugum. Íslenski flotinn hefur elst jafnt og þétt, ég veit að hv. þingmaður þekkir það frá sínum heimaslóðum. Hann hefur elst jafnt og þétt og ekki hefur verið eðlileg endurnýjun í íslenskum sjávarútvegi allt of lengi vegna þess að arðsemin hefur ekki verið næg. Hún er það núna. Þjóðin á rétt á sínum hlut í arðseminni sem verður að langstærstum hluta eftir í greininni sjálfri eins og frumvarpið og þær breytingartillögur sem gerðar hafa verið við það gefa til kynna.