140. löggjafarþing — 115. fundur,  7. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[18:42]
Horfa

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er grundvallaratriði að ríkisstjórn sem ætlar að stjórna af viti nái sátt um stóru málin. Hvort sem um er að ræða fiskveiðistjórn, Evrópusambandið, rammaáætlun eða stjórnarskrá, svo að dæmi séu tekin, þarf að vinna að sátt. Ef ekki næst sátt er ekki tímabært að afgreiða hlutina. Það verður að vinna til sátta en ekki vinna með afli, með hnjánum eða olnbogunum, hvað þá með hælunum eins og hv. ríkisstjórn gerir. Þetta er grundvallaratriði.

Það er rétt að alvarlega breið gjá er að myndast á milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis og ég tel að ríkisstjórn sem vinnur svo óskipulega og ófaglega eins og sú sem nú situr beri mikla ábyrgð á því að sú gjá er að breikka og dýpka. Öllu er fruttað áfram með afli og aðferðum sem ekki eiga að vera til staðar.

Það er líka mikil gjá að myndast milli fréttastofu Ríkisútvarpsins og lífsins í landinu. Fréttastofa Ríkisútvarpsins lítur landsbyggðina alla hornauga. Hún sinnir henni ekki, hún segir ekki frá henni, hún ræktar ekki sjónarmiðin, hún gefur ekki færi og það veldur því að fyrr en seinna mun molna undan Ríkisútvarpinu, jafnvel hjá okkur sem höfum endalaust varið það sem mikilvægan þátt í íslensku þjóðfélagi.

Virðulegi forseti. Það var þröngur hópur sem mótmælti samstöðufundinum á Austurvelli en það var merkilegt að eina draslið sem eftir varð á svæðinu lá þar sem sá hópur stóð.