140. löggjafarþing — 115. fundur,  7. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[18:57]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta atvinnuvn. (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kaus að gera þessa umræðu að umræðuefni í ræðu minni og þar með má kannski segja að ég hafi ekki verið að fjalla um efni frumvarpsins en mér fannst réttur tími til þessa núna. Þessari umræðu hefur aðeins undið fram og ég verð að játa að það hefur valdið mér vaxandi áhyggjum hvernig hún hefur þróast.

Ég ætla ekkert að undanskilja sjálfan mig, ég hef stundum tekið of djúpt í árinni í þessari sjávarútvegsumræðu eins og í ýmissi annarri umræðu, það er svo sem enginn dómari í eigin sök. Ég held samt að við eigum að bera að minnsta kosti þá virðingu hvert fyrir öðru að gera mönnum það ekki upp að þeir séu ekki að tjá sinn eigin hug. Við getum haft skoðanir og við getum þess vegna hjólað í manninn en við eigum ekki að gera honum það upp að hann gangi hér einhverra erinda af annarlegum hvötum.

Af hverju kjósa menn svo mjög í þessari umræðu að stilla Landssambandi íslenskra útvegsmanna upp við vegg? Það er vegna þess, sem blasir við öllum, að tekist hefur að sverta þau ágætu samtök. Þau hafa örugglega gert ýmislegt sem þau hefðu betur látið ógert, eins og gengur og gerist í lífinu, en þau hafa auðvitað sínar ástæður fyrir málflutningi sínum. Þau hafa að mínu mati lagt margt gott inn í þessa umræðu, eins og álitin sem þau kynntu fyrir atvinnuveganefnd, að mínu mati burðarmikil álit.

Ég var áðan úti á fundinum. Þar talaði til dæmis duglegur sjómaður innan vébanda Landssambands smábátaeigenda, Þorvaldur Garðarsson í Þorlákshöfn. Hann flutti mjög fína ræðu. Ég hef áður heyrt hann tala um sjávarútvegsmál og mér fannst það sem hann sagði eiga mikið erindi inn í umræðuna. Undir ræðu hans hljómaði kór fámenns en mjög háværs hóps þar sem reynt var að kaffæra málflutning þessa manns sem hafði mikið fram að færa, hefur hafist af sjálfum sér, rær sjálfur sínum bát og gerir hann út af miklum dugnaði og myndarskap. Ég held að við hefðum öll mjög gott af því að heyra sjónarmið slíks manns og ekki síst þessi háværi hópur sem vildi ekki heyra það sem þarna fór fram og, það sem verra var, vildi ekki gera öðrum kleift að heyra það sem fór fram á fundinum.