140. löggjafarþing — 115. fundur,  7. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[19:04]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta atvinnuvn. (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svarið við spurningunni um hóflegt veiðigjald er dálítið flókið. Í fyrsta lagi þurfa menn að vita hver hinn lagalegi rammi verður að öðru leyti, þ.e. ramminn í kringum veiðistjórnarfyrirkomulagið. Í öðru lagi þurfa menn að átta sig á því að staða fyrirtækja innan greinarinnar er mjög misjöfn. Í þriðja lagi þarf að átta sig á því að staða einstakra útgerðarflokka innan þessa útgerðarhóps er líka mjög misjöfn þannig að það sem kann að vera hóflegt fyrir einn er það alls ekki fyrir annan.

Einn vandinn sem við stóðum frammi fyrir í þessu máli var sá, þegar menn voru komnir af stað með svo hátt veiðigjald upp á 15 milljarða, ég tala nú ekki um 25 milljarða, að sum fyrirtæki höfðu farið í tiltölulega nýlegar fjárfestingar. Hvaða hópur var það? Við höfum kallað þá nýliða, við höfum stundum kallað þá einyrkja. Ég hygg að pólitískt séð hafi verið býsna mikill áhugi á því að slíkir aðilar gætu dafnað áfram í sjávarútveginum. Hluti af þeim hópi hefur starfað innan krókaaflamarksins og átti ekki margra kosta völ. Krókaaflamarkið var að þróast þannig að menn voru að kaupa sér aflaheimildir og þeir voru að stækka bátana vegna þess að heimildir til að stækka bátana fengust ekki fyrr en fyrir um tíu árum síðan.

Lagaumhverfið sem við bjuggum til fyrir rúmum áratug síðan var því tiltölulega nýtt og það leiddi af sér að menn fóru að fjárfesta og auðvitað voru margir af þeim nýjustu að fjárfesta líka í aflamarkinu. Gagnstætt því sem menn hafa haldið fram þá hefur nefnilega verið talsverð endurnýjun og nýliðun í sjávarútvegi, sem betur fer. Það er auðvitað þessi hópur sem við vorum að reyna að halda utan um og ég hef sagt, þó að ég viti að það er sannarlega ekki óumdeilt, að ég tel að það sé mjög vel verjandi og hafi raunar verið algjörlega nauðsynlegt miðað við það frumvarp sem við höfum hér í höndunum að búa til sérstök úrræði fyrir þessa aðila.

Mér er hins vegar alveg ljóst að frá sjónarhóli þeirra sem hafa til dæmis eldri fjárfestingar, þeirra sem hafa kannski farið sér hægar í fjárfestingar, hljómar þetta eins og það sé ósanngjarnt en við höfum líka verið að beita þessum aðferðum gagnvart skuldugum heimilum í landinu svo dæmi sé tekið.