140. löggjafarþing — 115. fundur,  7. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[19:08]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta atvinnuvn. (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jú, það finnst mér einmitt vera kjarni málsins. Nú erum við að feta okkur á nýja slóð og hugmyndin er sú að auka veiðigjaldið. Gleymum því ekki að veiðigjaldið er í dag 4,5 milljarðar kr., ætlunin er að fara með það upp í 15. Það er rúmlega þreföldun á því veiðigjaldi sem hefur verið og niðurstaðan mun, eins og hv. þingmaður segir, fyrir einstakar útgerðir verða mjög margbreytileg af þeim ástæðum sem við vorum að fara yfir, þessu nýja ákvæði um að taka sérstaklega tillit til skuldugra útgerða.

Þegar þetta frumvarp var lagt fram var boðað að lagt yrði fram frumvarp sem lyti að skattamálum og skattalegri meðferð kvótans og kvótinn yrði gerður að nýju afskrifanlegur. Hann hafði verið talinn afskrifanlegur en síðan breyttist það með frægum hæstaréttardómi sem leiddi síðan til þess að þáverandi ríkisstjórn lagði fram frumvarp um það að eignfæra bæri kvótann en ekki að gera hann afskrifanlegan. Það er auðvitað mjög mikilvægt fyrir þá sem eru í þeirri stöðu að borga tekjuskatt. Það gagnast hins vegar ekki útgerðum sem eru mjög skuldugar, þær borga hvort eð er ekki tekjuskatt. Það mundi að vísu búa til meira skattalegt tap sem nýttist (Forseti hringir.) mönnum inn í framtíðina en dygði ekki til þess að bjarga stöðu skuldugustu útgerðanna.