140. löggjafarþing — 115. fundur,  7. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[19:23]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Björn Valur Gíslason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni ræðu hans sem snerist að stórum hluta um umræðuhefðina um þetta mál. Að miklu leyti var ræða hans kannski ekki í þá átt sem hér hefur oft verið rætt um, þ.e. að bæta verði umræðuhefðina, alla vega skildi ég þær setningar, (Gripið fram í.) sem hljómuðu einhvern veginn á þann veg að stjórnarliðar væru eins og dregnir út úr tímavél sovéska kommúnistaflokksins og að heldur hefði verið bætt í fúkyrðaflauminn hjá þeim o.s.frv., sem þess konar innlegg í umræðuna. Ég ætla þá að vona að hv. þingmaður hafi verið að meina annað, að við ættum tala öðruvísi um sjávarútveginn en gert hefur verið því að það hefur verið helsti akkilesarhællinn á umræðunum, ekki bara núna heldur árum og áratugum saman, þ.e. hin ofsalega umræða um greinina á alla kanta, í stjórnmálunum, innan greinarinnar, milli sjómanna og útgerðarmanna, milli stjórnmálamanna og útgerðarmanna, milli stjórnmálamanna og sjómanna, eins og ég hef farið yfir hér áður. Það er það sem háð hefur greininni að stórum hluta. Þegar deiluefnin eru tekin frá og skoðuð og greind er ekki svo margt sem stendur eftir. Þannig hefur það nú verið. Ég hef reynt að gera það á undanförnum árum og á fjölmörgum fundum allt í kringum landið til að einangra það sem út af stendur í helstu deiluefnunum.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann um stefnu Framsóknarflokksins í sjávarútvegsmálum eins og hún birtist í landsfundarsamþykkt þar sem annars vegar er gert ráð fyrir að farin verði blönduð leið í sjávarútvegsmálunum sem byggi á aflahlutdeild skipa og hins vegar sé byggt á byggðasjónarmiðum og atvinnusjónarmiðum, þ.e. að þessu verði skipt upp í tvo hluta og gerður 20 ára samningur og að greitt verði gjald fyrir það. Í ályktun landsfundar Framsóknarflokksins segir að það sé hóflegt gjald tengt afkomu greinarinnar, sem er eiginlega það sem frumvarpið sem við tölum um hér grundvallast á, nátengt afkomu greinarinnar. (Forseti hringir.) Hvernig fellur stefna Framsóknarflokksins að sjónarmiðum frumvarpsins hvað þetta varðar?