140. löggjafarþing — 115. fundur,  7. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[19:26]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Björn Valur Gíslason) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég get fullvissað hv. þingmann um að það eru ekki innihaldslaus orð af minni hálfu að reyna að tala málefnalega um sjávarútveginn og efnislega um þau frumvörp sem að honum snúa. Þannig hef ég reynt að ræða um þessi mál, um sjávarútvegsmálin fyrst og fremst, og sérstaklega þó hin síðari ár. Ég hef reynt að draga mig út úr þeim átökum sem allt of oft hafa einkennt alla umræðu um þessa grein og skaðað hana umfram annað. Þau hafa svert ímynd greinarinnar bæði inn á við og út á við, sérstaklega þó fyrir þá sem starfa í greininni og hafa heldur haldið sig til hlés, eins og hv. þingmaður nefndi áðan, vegna þess að þeir hafa þá oft verið tengdir við ýmis hagsmunaöfl og sagðir vera handbendi útgerðar, stéttarfélaga eða annarra sem hagsmuna eiga að gæta.

Framsóknarflokkurinn átti fulltrúa í endurskoðunarnefnd laga um stjórn fiskveiða sem starfaði 2009 og 2010, hv. þm. Gunnar Braga Sveinsson, sem starfaði þar með ágætum ásamt öllum þeim sem komu þar að.

Meginniðurstaða þess hóps var sú, eins og segir í skýrslu hópsins, með leyfi forseta:

„[A]ð gerðir verði samningar um nýtingu aflaheimilda og þannig gengið formlega frá því að auðlindinni sé ráðstafað frá ríkinu gegn gjaldi og að eignarréttur ríkisins sé skýr. […] Meiri hluti starfshópsins er sammála um að mæla með því að aflaheimildum verði skipt í „potta“ [þ.e. tvo hluta] þar sem annars vegar eru aflahlutdeildir og hins vegar bætur og ívilnanir, s.s. byggðakvóti …“ o.s.frv.

Þetta er ekki útfært, þetta eru meginsjónarmiðin. Þau meginsjónarmið eru að mínu mati það sem við ræðum um í þessu frumvarpi og ræddum varðandi það frumvarp sem enn er í atvinnuveganefnd. Er þingmaðurinn sammála mér um þessi meginsjónarmið? Deilum við þá ekki um hugmyndafræðina sem slíka, um sjónarmiðin, prinsippin? Greinir okkur þá fyrst og fremst á um tölur og upphæðir stærða í pottum og krónur í veiðigjaldi?