140. löggjafarþing — 115. fundur,  7. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[19:33]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Það var ágætt að hv. þingmaður skyldi nefna Landsbankann og það mat sem hann hefur lagt á stöðu greinarinnar og getu hennar til að standa undir þessum tillögum ríkisstjórnarinnar. Þar er nefnilega komið enn eitt dæmið um það að menn líta ekki á heildaráhrifin. Þeir reikna sér gríðarlegar tekjur af því að hækka gjaldið svo og svo mikið en reikna ekki kostnaðinn af þeim störfum sem tapast og gleyma því alveg að ríkisbankinn Landsbankinn er helsti lánveitandi sjávarútvegsins. Ef menn ráðast í þessar breytingar og þær hafa þau áhrif sem sérfræðingar hafa spáð, að stór hluti fyrirtækja í greininni fari í þrot, verði gjaldþrota, tapar ríkisbankinn Landsbankinn á því og þar með ríkið.

Menn líta iðulega alltaf bara á aðra hlið dæmisins þegar þeir reikna út áhrif frumvarpa ríkisstjórnarinnar. Það á ekki bara við um þetta mál heldur fjölmörg mál sem ríkisstjórnin hefur lagt fram og raunar á það oft og tíðum líka við um forsendur fjárlaga. Ég nefni sem dæmi fyrirhugaðan niðurskurð í heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni þar sem ekki var reiknað með neinum kostnaði neins staðar annars staðar á móti.

Hv. þingmaður nefndi líka þau rök sem hv. stjórnarliðar hafa haldið hér fram um að fiskurinn verði veiddur áfram. Þó að 4 þús. manns missi vinnuna fá einhverjir aðrir, hugsanlega að einhverju leyti sama fólkið, störf annars staðar við að veiða fiskinn. Það sem gleymist í röksemdafærslu af þessu tagi er að það er ekki sama hvort fiskur er veiddur og seldur á hagkvæman hátt, hvort hann skapar verðmæti, eða hvort illa er staðið að veiðunum og fiskurinn seldur á lægra verði, hvort kerfið sem slíkt ýtir undir (Forseti hringir.) hagkvæmni og verðmætasköpun eða ekki.