140. löggjafarþing — 115. fundur,  7. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[19:40]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarpið um veiðileyfagjöldin. Ég ætla að byrja á að taka undir það sem fram kom í andsvörum milli hv. þingmanna hér áðan, í raun og veru hefur allt breyst í þessu nema umræðan eins og hv. þm. Einar K. Guðfinnsson benti réttilega á. Ég tel mikilvægt að þar líti allir sér nær, sama hvort það eru hagsmunaaðilar, stjórnmálaflokkar eða hver sem það er. Það hefur verið galli við þessi fiskveiðistjórnarmál alveg frá upphafi að stærstu og mestu yfirlýsingarnar hafa ekki verið greininni til framdráttar.

Það vita allir að áætluð gjaldtaka upp á 15 milljarða mun hafa áhrif, það gefur augaleið. Hve mikil áhrif hefur það? Ef ég tala fyrst út frá ríkissjóði koma væntanlega þessir 15 milljarðar í ríkissjóð en við ættum kannski líka að staldra við þá spurningu hvort það séu nettóáhrif. Hvaða áhrif hefur það að taka þessa fjármuni út úr sjávarútvegsbyggðunum? Þýðir það að þau fari í minni uppbyggingu og kaupi þar af leiðandi minni þjónustu? Já, að mínu mati gefur það augaleið. Það dregur þá saman tekjustofnana þar og eins hjá sveitarfélögum sjávarbyggðanna.

Áðan var komið inn á það sem sneri að Landsbanka Íslands. Maður staldrar við það sem kemur fram í umsögn frá Landsbankanum, að gangi frumvörpin bæði eftir muni Landsbankinn þurfa að afskrifa 31 milljarð. Eins og allir vita er ríkið meirihlutaeigandi í Landsbankanum þannig að það segir sig alveg sjálft að mikilvægt er að menn geri sér grein fyrir nettóáhrifunum. Ég hef ekki heyrt nokkurn einasta hv. þingmann halda því fram að þessi gjaldtaka út úr sjávarbyggðunum muni ekki hafa nein áhrif, enda liggur það í augum uppi.

Í þessu máli er verið að fanga svokallaða auðlindarentu út úr veiðum og vinnslu, ég kalla hana reyndar landsbyggðarskatt. Henni er skipt upp í bolfisk og uppsjávarfisk, þ.e. uppsjávarveiðiheimildir. Ég er alveg sannfærður um að þetta mun koma misjafnlega niður á einstaka útgerðarflokkum, annars vegar útgerðum sem eru með vinnslu og hins vegar þeim sem ekki eru með vinnslu og eins líka mismunandi á milli útgerðarflokka. Það er því mjög mikilvægt að það verði skoðað sérstaklega hvaða áhrif þetta muni hafa og ég vænti þess að það verði gert þegar niðurstaðan verður komin.

Ég hlýt að gera athugasemdir við það, og hef gert það áður, að þegar menn fara að ráðstafa skatttekjunum inn í ákveðin verkefni, sem eru mér ekki að skapi, þ.e. í svokallaða fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar — hér á að fara að leggja vegi og bora göng fyrir hluta af veiðigjaldinu — minnir það á þá aðferðafræði sem notuð er við hina svokölluðu IPA-styrki sem við ræddum hér fyrir nokkrum dögum.

Við skulum líka staldra aðeins við það sem fram kemur í umsögn ASÍ. Útreikningar ASÍ sýna að ef krónan styrkist um 20% — auðvitað eru ekki miklar líkur á því, það verður að halda því til haga — hríðlækkar veiðileyfagjaldið, það lækkar um rúmlega helming. Þá er líka mikilvægt að við ræðum það efnislega hvort skynsamlegra sé að greiða gjaldið meira í nútímanum, þ.e. að menn greiði gjaldið nánast jöfnum höndum á því ári sem verið er að skapa verðmætin en ekki eftir á eins og gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Ég tel mjög mikilvægt að það verði skoðað í framhaldinu og þá í samstarfi og sátt við þá sem starfa í greininni. Samkvæmt breytingartillögu meiri hlutans er gert ráð fyrir að álagt gjald á viðkomandi ígildi fyrir fiskveiðiárið 2012–2013 sé ákveðin krónutala. Þetta er verkefni sem við þurfum að skoða og treysta á að verði gert.

Það var líka mjög áberandi sem kom fram á fundinum í gær hjá Brimi þar sem sýnt var fram á að svokölluð auðlindarenta væri þannig að þegar menn veiddu eina tegund, sem í þessu tilfelli var gulllax, væri auðlindarentan við veiðarnar 172%. Það var sýnt fram á það með tölulegum gögnum, þ.e. það þarf ekkert að efast um það eða giska á það eins og oft er gert í þessum umræðum. Þegar verið var að veiða makríl hjá sama fyrirtæki og raunkostnaðartölur skoðaðar var auðlindarentan 13,6%. Það er mjög mikilvægt að þetta verði skoðað og metið og vegið hvernig menn ætla að innheimta svokallaða auðlindarentu, þ.e. landsbyggðarskatt.

Þorskígildisstuðlarnir eru gallaðir og þar kristallast misræmi gagnvart gulllaxi og makríl. Við stöndum þá líka frammi fyrir þeirri spurningu, og verðum að taka heiðarlega umræðu um hana, hvort skynsamlegra sé, þegar verðmæti viðkomandi fisktegunda er vegið og metið, að menn borgi bara ákveðið fyrir kílóið af þeim fiski sem þeir eru að fara að veiða, ekki gagnvart þessari auðlindarentu í þorskígildisstuðlunum. Þá er hvatinn til þess að menn geri sem mest verðmæti úr þeim tegundum sem viðkomandi útgerðarfélög eru að fara að veiða. Þá sitja allir við sama borð.

Athyglisvert væri að skoða skýrasta dæmið um þetta. Ég nefndi makrílveiðarnar en þau skip sem til að mynda veiða makrílinn og frysta hann og vinna hann úti á sjó fá kannski fimm til sex sinnum hærra verð til útgerðarinnar á þeim tíma en þeir sem bræða hann. Fyrirtæki sem veiðir makrílinn og frystir um borð fær kannski 250 kr. fyrir kílóið. Þá er hlutaskiptakerfi um borð í skipunum og 40% af þessum 250 kr. fara til áhafna skipanna sem hafa miklar tekjur og borga þar af leiðandi skatta til samfélagsins, bæði tekjuskatt og útsvar til sveitarfélaganna.

Ef við snúum þessu við og skoðum sama útgerðarfélag sem er með annað skip sem veiðir makrílinn og landar honum í bræðslu er verðið kannski 40–50 kr. Þá gefur það augaleið að tekjur ríkissjóðs og sveitarfélaganna munu lækka mjög mikið vegna þess að þá hafa sjómennirnir 40% af þessum 50 kr. í stað 250 kr. Þar hrapar þá skattstofn ríkisins og sveitarfélaganna. Þegar þetta sama fyrirtæki er kannski búið að bræða makrílinn — og það er auðvitað umhugsunarefni hvort yfir höfuð eigi að leyfa það nema í algjörum undantekningartilfellum, bara hreinlega þegar eitthvað kemur upp á — er launakostnaðurinn við bræðsluna mjög lítill. En þegar upp er staðið er nettóniðurstaða útgerðarinnar og vinnslunnar í þessu tilfelli, ef það er á sömu hendi, kannski sambærileg. Það gildir þá einu fyrir útgerðarfélagið hvort aflinn er bræddur eða frystur en klárlega verður tekjufall hjá ríkissjóði og sveitarfélögunum af því að skatttekjurnar miðast við hlutaskiptakerfið.

Það verður líka að hafa í huga að hitt frumvarpið, um fiskveiðistjórnina, hefur ekki verið afgreitt úr nefndinni en það verður að setja þessi tvö frumvörp í samhengi. Þeim mun meiri sem breytingarnar þar verða, eins og stefnt er að, minnkar geta útgerðarinnar til að greiða svokallað auðlindagjald, þ.e. landsbyggðarskatt sem ég kalla svo. Auðvitað verða menn að sýna á öll þau spil sem þar eru áður en hægt verður að afgreiða þetta frumvarp endanlega. Annað væri mjög óábyrgt.