140. löggjafarþing — 115. fundur,  7. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[19:52]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Björn Valur Gíslason) (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég tel fullt tilefni til að þakka hv. þingmanni svarið við andsvari mínu. Ég ætla að halda mig á sömu slóðum varðandi þátttöku sjómanna í því að greiða þetta gjald. Ég fór yfir þetta áðan í andsvari við ræðu hv. þm. Einars Kristins Guðfinnssonar, sem ég fékk reyndar ekki svar við.

Hvernig stendur á þeirri hættu, sem hv. þm. Ásbjörn Óttarsson telur vera eða telur líklega, að sjómenn þurfi að greiða þetta gjald, þegar staðreyndin er sú að verði frumvarpið að lögum verður eftir innan greinarinnar þriðja hæsta framlegð í sögu íslensks sjávarútvegs? Aðeins tvisvar, á árinu 2011 og 2009, hefur framlegðin verið hærri. Á árunum þar á undan, alveg frá 2001–2008, var hún miklu lægri. Hvernig stóð á því að sjómenn voru ekki krafðir um aukið framlag þá þegar (Forseti hringir.) afgangurinn var minni? Hvers vegna á að krefja þá um það núna (Forseti hringir.) þegar afgangurinn er margfalt meiri?