140. löggjafarþing — 115. fundur,  7. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[19:57]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er vitanlega rétt hjá hv. þingmanni að þessi fyrirtæki, mörg hver, eru burðarásar í samfélögum þar sem þau eru. Ég held að Knattspyrnufélag Grindavíkur hafi sent frá sér ályktun í dag þar sem vakin var athygli á því hversu miklu þessi fyrirtæki skipta. Menn verða vitanlega að hafa í huga að þessi þorp okkar og bæir úti á landi hafa ekki eða lítinn aðgang að bönkum og tryggingafélögum og slíkum fyrirtækjum, verslunum, sem styðja við bakið á slíkri starfsemi í borginni.

Það sem skiptir líka máli er að um leið og keðjan í þorpunum fer að rofna, þegar einhver sérfræðingur missir vinnuna vegna samdráttar, getur það haft keðjuverkandi áhrif því að samfélögin eru svo lítil.

Ég held að það vanti einmitt samfélagslegt mat á hvaða áhrif þessi frumvörp geta haft á þessi litlu samfélög.