140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

störf þingsins.

[10:30]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Við fylgjumst nú af ákefð með vendingu og þróun efnahagsmála og stjórnmála í Evrópu og Bandaríkjunum. Í gær bárust fréttir af leiðtogafundi Þýskalands og Bretlands þar sem leiðtogarnir voru sammála um að meiri agi í ríkisfjármálum nægði ekki einn og sér til að stemma stigu við því umróti sem staðið hefur yfir um þessi mál. Kanslari Þýskalands sagði fyrir fundinn að Evrópa þyrfti fyrst og fremst á meiri einingu í pólitískri stefnumótun að halda. Kallaði hún eftir auknum pólitískum samruna í Evrópu til að takast á við aðsteðjandi vandamál á evrusvæðinu. Þetta undirstrikar að mínu mati þá miklu deiglu sem er innan ríkja sambandsins sem nú stendur sannarlega á tímamótum. Allt bendir til þess að út úr umróti og ágangi síðustu ára komi Evrópusambandið breytt og öflugra en nokkru sinni fyrr, byggt á aukinni pólitískri einingu og sameiginlegum aga í efnahagsmálum. Í þessu ljósi er mikilvægt fyrir okkur Íslendinga að fara varlega og vanda okkur í aðildarviðræðunum. Sérstaklega er mikilvægt að ekki sé látið undan pólitískum þrýstingi um að kasta til höndum og hraða ferlinu umfram það sem eðlilegt er. Það er athyglisvert í þessu samhengi, þegar litið er til aðildarsögu sambandsins, að þau lönd sem hafa farið hraðast inn frá því að þau sóttu um aðild eru Finnland og Svíþjóð. Þau urðu aðilar að sambandinu rúmlega fjórum árum eftir að þau sóttu um aðild enda EFTA-ríki eins og Ísland. Það er því fjarri að umsóknarferlið okkar hafi gengið hægt fyrir sig. Það er hins vegar mikilvægt að það gangi vel og ástæða til að fara varlega vegna umrótsins og yfirvofandi breytinga á sambandinu.

Hagsmunir okkar eru að ná sem allra hagstæðustum samningum. Fljótaskrift og óeðlilegur flýtir vegna pólitískrar óþreyju hér heima má ekki taka ferlið yfir með þeim afleiðingum að við sitjum uppi með lakari samning en efni standa til. Því vildi ég skora á þingheim og þjóðina að halda ró sinni í þessum efnum, rasa ekki um ráð fram, stöðva ekki viðræðurnar heldur halda þeim áfram af festu og yfirvegun og klára samninginn þegar umrótinu og (Forseti hringir.) breytingunum er lokið í Evrópusambandinu. Síðan getum við kosið um aðild að samningi vonandi einhvern tíma seint á næsta ári.