140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

störf þingsins.

[10:35]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Fyrri partur ræðu hv. þm. Björgvins G. Sigurðssonar var ábyggilega að mörgu leyti réttmæt lýsing á því sem er að gerast úti í Evrópu. Það má hins vegar deila um þær ályktanir sem hann dregur af þeim atburðum. Ég tek undir með hv. þm. Illuga Gunnarssyni að auðvitað virðist manni við þessar aðstæður að skynsamlegast sé að hætta viðræðum og taka þær þá ekki upp að nýju nema vilji standi til þess á þingi og meðal þjóðarinnar, þegar við sjáum í hvaða átt Evrópusambandið stefnir.

En það var líka athyglisvert við ræðu hv. þm. Björgvins G. Sigurðssonar að sú sýn sem hann lýsti í máli sínu virðist mér nokkuð önnur en sú lýsing sem hefur komið fram af hálfu hæstv. utanríkisráðherra og af hálfu hv. formanns utanríkismálanefndar. Ég hef ekki getað ráðið annað af orðum þeirra í þingsal, þegar spurt hefur verið um þessi efni, en að þeir teldu að viðræðurnar gengju bara býsna vel, þetta væri allt á réttu róli og í eðlilegum farvegi og við þyrftum ekki að taka neinar sérstakar ákvarðanir. Það var hins vegar ekki hægt að skilja hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson öðruvísi en svo að hann teldi að nú ættum við að staldra við og hægja á ferðinni. Það er auðvitað nokkuð önnur sýn á stöðu mála en var hjá fyrrnefndum aðilum.

Annað sem komið var inn á var að líkur eru á því að breytingaumrótið allt innan Evrópusambandsins leiði til þess að sambandið verði þéttara, samruninn verði meiri, fleiri atriði verði sett undir miðstjórnarvaldið og minna verði eftir úti hjá þjóðríkjunum. (Forseti hringir.) Það skiptir auðvitað töluverðu máli þegar við Íslendingar tökum afstöðu til þess þegar við viljum ganga í sambandið, hversu mikið fullveldisframsalið verður ef við göngum þar inn.