140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

störf þingsins.

[10:37]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Í gær urðum við vitni að mjög sérkennilegri uppákomu sem við getum kallað Bjarmalandsför útgerðarinnar á Austurvöll. Eftir þá mestu áróðurs- og auglýsingaherferð sem nokkur samtök hafa ráðist í, eftir að þau höfðu stefnt öllu sínu starfsfólki til fundar á Austurvelli og 70 skipum að landi, komu á annað þúsund manns á Austurvöll kl. 4 í gær, þar af jafnstór hópur til að mótmæla þeim málflutningi og áróðri sem þar átti sér stað. Núna lét almenningur í sér heyra og það er sú rödd í þessari umræðu sem ekki hefur verið boðinn míkrafónninn, sem ekki hefur verið boðið að samráðsborði eða samningaborði. Þessi rödd kvaddi sér sjálf hljóðs á Austurvelli í gær og sennilega er það í fyrsta skipti sem alþingismenn við Austurvöll fá að heyra hreint og klárt sjálfsprottna rödd almennings í sjávarútvegsmálum og kröfuna um breytingu á fiskveiðistjórnarkerfinu, kröfuna um skýlausa þjóðareign á þjóðarauðlind okkar Íslendinga, fiskveiðiauðlindinni. Á þessa rödd ber stjórnvöldum að hlusta. Á þessa rödd þarf LÍÚ að hlusta. (Gripið fram í.) Það þurfa allir að gera sér grein fyrir henni.

Nú hrópa hv. þingmenn fram í: Á ekki að hlusta á hina röddina? Rödd LÍÚ hefur hljómað í áróðursauglýsingum, á áróðursfundum, í ljósvakamiðlum undanfarin þrjú ár og hefur í raun yfirskyggt allan annan málflutning í umræðunni. Núna fengu alþingismenn (Forseti hringir.) að heyra hina röddina. Hún er hávær, hún er sterk og á hana ber okkur að hlusta.