140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

störf þingsins.

[10:44]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég held að Landssamband íslenskra útvegsmanna geti lært það af gærdeginum að öfgafullur hræðsluáróður og kaldastríðspólitík á lítinn hljómgrunn með almenningi á Íslandi. Ég held að þeir stjórnmálaflokkar sem starfa á Alþingi eigi að huga að hinu sama því að það yfirbragð sem verið hefur á deilunum um sjávarútvegsmál er ekki að auka veg og virðingu þessarar stofnunar fremur en Landssambands íslenskra útvegsmanna. Það er tími til kominn að málþófi linni hér og stjórnarandstaðan láti hinum lýðræðislega kjörna meiri hluta það eftir að setja skattalög í krafti umboðs síns.

En um þá umræðu sem hér hefur spunnist um Evrópusambandið, þá er hún býsna athyglisverð. Hér koma upp þingmenn úr röðum Sjálfstæðisflokksins og vara við aukinni miðstýringu í Evrópusambandinu. Er tilefni til að vara við því? Sýnir reynslan ekki einmitt að hennar er þörf? Sýna einfaldlega ekki ófarir jaðarsvæðanna í Evrópu, Íslands, Grikklands, (Gripið fram í: Noregs.) Spánar og annarra — allra annarra en olíuríkisins mikla sem hér er kallað fram í um — að það er þörf fyrir aukna miðstýringu, það er þörf fyrir öflugri stofnanir, sterkari gjaldmiðla og öflugri peningastefnu? (Gripið fram í.) Er ekki skynsamlegt fyrir Íslendinga að vera hluti af þeirri þróun þegar við horfumst nú í augu við að þjóðarframleiðsla okkar á mann hefur dregist verulega aftur úr þeim ríkjum Evrópusambandsins sem eru í kringum okkur? (Gripið fram í.) Ógnar það ekki sjálfstæði okkar að við höfum dregist svo efnahagslega aftur úr ríkjum Evrópusambandsins í Norður-Evrópu að Íslendingar eru farnir að líta þangað (Forseti hringir.) sem valkost um búsetu?