140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

störf þingsins.

[10:55]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ill tíðindi berast nú frá Evrópusambandinu sem endranær og það er að þróast mjög hratt í átt til ríkis eins og ég hef margoft bent á. Ég ætla ekki ræða það eða hvílík vitleysa það er að vera að sækja þarna um aðild. Ég ætla að ræða um viðskipti Íslands við Evrópusambandið sem er um 70% af útflutningi okkar, hann er gífurlega mikilvægur. Ég ætla að ræða um sjávarútveginn sem hefur tekist með mikilli snilli að breyta fiski úr venjulegri matvöru í lúxusmatvöru um alla Evrópu. Hvað gerist þegar kreppa kemur og atvinnuleysi eins og á Spáni? Þá minnkar eftirspurn eftir lúxusvörum og lúxusmatvöru. Þá kann það að gerast að við getum ekki selt fiskinn þrátt fyrir mikla tækni og þekkingu á því sviði, að okkar háþróaða sjávarútvegi takist ekki að selja fiskinn á því verði sem hann hefur selst á hingað til. Það kann að leiða til þess að afkoma greinarinnar versni allverulega.

Þá fer ég að tala um veiðiskattana. Nú liggur frumvarp fyrir Alþingi um að leggja á greinina verulega skatta sem taka í fyrsta lagi mið af engu, það eru bara 9,5 kr. á kíló, algerlega óháð afkomunni, og hins vegar erum við með skatta sem taka mið af afkomu síðasta árs og þar síðasta árs. Það þýðir að á næsta ári þegar hugsanlega verða komin mikil vandræði, eða svo gæti farið — ég vona ekki — sligum við útgerðina með sköttum sem miða við afkomu þessa árs og síðasta árs sem var alveg glimrandi góð vegna hagstæðs gengis og mjög hás verðs á þessari lúxusmatvöru. Ég vara menn við því að koma með svona eftiráskatta sem keyrt gætu greinina í þrot því að við þurfum að hafa sérstaklega sveigjanlega atvinnugrein.