140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

störf þingsins.

[10:59]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég hjó eftir því hjá hv. þm. Árna Páli Árnasyni að hann var þeirrar skoðunar að það væri ekki evran sjálf sem væri vandinn heldur væri þetta bara hluti af hinni alþjóðlegu bankakrísu. Ég held að það sé ekki rétt hjá hv. þingmanni og ég er ekki einn um þá skoðun. Það er ágætt að rifja til dæmis upp ummæli manna hjá Evrópska seðlabankanum þar sem sagt var að evran væri ekki sjálfbær mynt. Það er áhugavert að skoða ummæli annarra evrópskra stjórnmálaleiðtoga um evruna þar sem menn standa frammi fyrir því að undirstöður þessarar myntar voru ekki rétt lagðar. Það hefur haft mjög alvarleg áhrif á fjármálamarkaðina en líka á ríkisfjármálin og eins þau mistök sem áttu sér stað í fjármálakerfi álfunnar en þá var verið að lána ríkjum á sömu vöxtum sem báru ekki sama vaxtastig sem gerir það að verkum að ríkisfjármálin og fjármál allra þessara ríkja eru meira og minna í rúst.

Svarið er þetta: Ef evran á að lifa þarf að breyta ESB frá því ESB sem til var þegar við Íslendingar ákváðum að sækja um aðild og yfir í allt annað, yfir í sambandsríki með miðstýrðu valdi. Í ljósi þessa er alveg ástæða fyrir Alþingi Íslendinga að endurskoða ákvörðun sína um þetta mál. Ég hef nú þegar lagt fram beiðni um sérstaka umræðu við hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra um stöðu evrunnar og áhrif hennar á þróun mála í Evrópu.

Ég ætla að leyfa mér að skora á forseta að sjá til þess að sú umræða geti farið fram sem fyrst þannig að við getum rætt þetta hérna með sæmilega góðan tíma fyrir okkur af því að fyrir utan þau fiskveiðistjórnarmál sem við þurfum að ræða hér sem snúa beint að okkar Íslendingum er þetta eitt af þessum risastórum málum og það er ástæða fyrir okkur til að endurskoða þá ákvörðun (Forseti hringir.) sem tekin var hér sumarið 2009. Aðstæður hafa breyst gersamlega og algerlega.