140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[11:09]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Við höldum nú áfram umræðu um veiðigjöld, veiðiskatta eins og augljóst er að frekar ætti að kalla þetta mál. Ég hef hlustað á öll gífuryrðin gagnvart því fólki sem leyfði sér að mæta á fundinn hér í gær, þeim sveitarstjórnarmönnum, þeim sjómönnum, því fiskverkafólki og fleirum sem hafa lýst yfir mikilli andstöðu við þetta mál, hvernig ýjað er að því að þetta fólk gangi beinlínis erinda einhverra annarra en sjálfs sín. Það er vont að hlusta á svona og þetta er reginfirra.

Það rifjaðist upp fyrir mér þegar við á sínum tíma vorum að ræða mjög erfiðar og umdeildar breytingar á menntakerfinu. Við vildum þróa menntakerfið út í það að fjölga stúdentum sem mundu útskrifast 19 ára. Þá voru það sérstaklega ákveðnir skólar, ekki síst á höfuðborgarsvæðinu, sem voru eindregið á móti þeim breytingum. Svo vildi til að allir þeir nemendur sem voru í þeim skólum voru líka mjög eindregið á móti þeim breytingum. Að sjálfsögðu heyrðust ekki þær raddir að nemendur gengju erinda kennaranna.

Við göngum út frá því að hver og einn sem tekur afstöðu í svona mikilvægu máli, hvort sem það eru breytingar á menntakerfinu, heilbrigðiskerfinu eða á grundvelli sjávarútvegsins, geri það á eigi forsendum, á grundvelli eigin skynsemi, en ekki sé verið að etja fólki út í eitt eða neitt. Ég bið menn að bera virðingu fyrir fólki sem leggur sig þó í líma við að koma fram og lýsa skoðunum sínum á þann veg sem það hefur gert að undanförnu.

Ég vil líka minna fólk á það, og þá þingmenn stjórnarliðsins sem er tamara að koma hingað upp undir liðnum störf þingsins en að tala um málið sjálft, að ekki er ein einasta umsögn um það mál sem við höfum haft til umfjöllunar á umliðnum dögum og í meðferð atvinnuveganefndar sem bendir til þess að fara eigi þá leið að samþykkja þetta mál. Ekki ein einasta umsögn. Jú, reyndar hefur verið minnst á umsögn samfylkingarfélags í Suðurkjördæmi. Ein umsögn og hún er frá samfylkingarfélagi í Suðurkjördæmi.

Allir segja: Leggjum þetta til hliðar og vinnum þetta betur. Ekki er verið að tala um að slátra eigi algjörlega ákveðnum hugmyndum í frumvarpinu, ekki er verið að biðja um það. Það er verið að biðja um meiri skynsemi í þessi mál, sérstaklega það mál sem við ræðum núna. Ég hefði gjarnan viljað ræða hitt málið samhliða en ekki hefur gefist ráðrúm til þess.

Af hverju segi ég að ég sé enn bjartsýn á að menn nái saman í þinginu í þessu máli? Ef menn reyna að greina frá öll gífuryrðin sem fallið hafa á umliðnum dögum í málinu þá sést að tækifæri er til sátta. Ég batt til að mynda mjög miklar vonir við að við mundum ná ákveðinni sátt um sjávarútveginn á grundvelli sáttanefndarinnar. Mér fannst ríkisstjórnin stíga rétt skref með því að kalla alla aðila að þeirri nefnd. Niðurstaðan varð hins vegar þannig að ríkisstjórnin gat ekki fellt sig við hana og þess vegna erum við í ógöngum með málið af því að aðferðafræði ríkisstjórnarinnar til að ná fram breytingum á sjávarútveginum er með ólíkindum. Meðal annars þess vegna eru þessi læti.

Ég vil benda þingheimi á það sem segir í frétt í Morgunblaðinu í dag frá fundi hjá HB Granda. Ég dreg þessa frétt fram til að sýna fram á að það er ekki þannig að útgerðarmenn vilji ekki ræða breytingar á sjávarútveginum. Þeir búa við auðlindagjald og hafa gert á umliðnum tíu árum og eru tilbúnir og reiðubúnir í breytingar í þá veru en ekki eitthvert gjald sem kollvarpar því sem vel hefur tekist.

Ég minni aftur á það að einhverra hluta vegna höfum við þó notið þeirrar hamingju að geta byggt upp sjávarútveg sem hefur gefið okkur Íslendingum mikla auðsæld, auðlegð og framfarir á ýmsum sviðum. Við höfum skapað út frá sjávarútveginum, eins og hann hefur verið byggður upp á undangengnum árum, fjölmörg sprotafyrirtæki, nýsköpunarfyrirtæki og ekki síst á suðvesturhorninu. Þar höfum við nýtt þekkinguna og sköpunina inn í fyrirtækin sem byggja meðal annars á grunni farsæls fiskveiðistjórnarkerfis.

En gott og vel. Hvað segir í frétt Morgunblaðsins af fundi hjá HB Granda sem forstjórinn efndi til með starfsfólki um áhrif kvótafrumvarpanna á reksturinn? Þar segir, með leyfi forseta:

„Þá ræddi forstjórinn um áhrif þess að aflaheimildir fyrirtækisins yrðu skertar til að setja þær í pott eins og kveðið er á um í fiskveiðistjórnarfrumvarpinu.“ — Við erum reyndar ekki að ræða það núna heldur hækkunina á veiðigjaldinu. — „Eggert gagnrýndi þá umræðu sem sífellt væri uppi um að arðurinn af auðlindinni ætti að fara til þjóðarinnar og benti á allar þær tekjur sem færu til ríkisins og landsmanna í gegnum skatta og laun sem fyrirtækið greiddi.“ — Þær færu til ríkissjóðs og eftir atvikum til þeirrar ríkisstjórnar sem situr hverju sinni sem náttúrlega kemur með hugmyndir um að ráðstafa þeim skattpeningum. „Þessar fullyrðingar“ — segir Eggert — „standast því enga skoðun.“

Síðan kemur það sem ég vil meðal annars benda fólki á að er ein vísbendingin um að menn eru reiðubúnir til að ræða þær breytingar sem hægt er að gera en ekki ana fram af því offorsi sem raunin er. Áfram segir, með leyfi forseta:

„Þegar framsögu forstjórans lauk bauðst starfsfólki og öðrum fundargestum að spyrja hann spurninga. Var hann meðal annars spurður hvort stjórnendur fyrirtækisins væru algerlega mótfallnir nokkurri hækkun á veiðigjaldinu.

Eggert svaraði því til að svo væri alls ekki og menn hefðu virkilega léð máls á því. Það jákvæða við frumvörpin nú væri að þar væri gerð tilraun til að reikna veiðigjaldið á skynsamlegri hátt en áður og þar væri tekið tillit til hvernig gengi í greininni frá ári til árs og á milli mismunandi tegunda.“

Það er nú ekki beint farið í harkalega gagnrýni hér. En af hverju er ekki hægt að setjast niður með fólki og ræða málin eins og verið hefur sterkasta og einlægasta krafa útgerðarmanna og stjórnarandstöðunnar í þessu máli? Áfram segir í fréttinni, með leyfi forseta:

„„Við gætum borgað talsvert meira en samkvæmt núverandi kerfi, en þær tillögur sem liggja nú fyrir eru hins vegar langt umfram það sem skynsamlegt væri að sætta sig við vegna þeirra skaðlegu áhrifa sem það hefði á fyrirtækið.“

Forstjórinn gagnrýndi skort á samráði við fulltrúa greinarinnar þegar frumvörpin voru samin og lagði til að úr því yrði bætt.

„Það er gríðarlega mikið af kreddum og fordómum, hugsanlega á báða bóga, sem aðeins er hægt að eyða með umræðum,“ sagði hann.“

Ég tek heils hugar undir með forstjóra eins af helstu útgerðarfyrirtækjum landsins sem mér finnst stíga fram af hófsemi og skynsemi og af raunsæi í þessu máli.

Ég vil hvetja ríkisstjórnina og stjórnarmeirihlutann til að hlusta á þær raddir sem virkilega eru reiðubúnar til að standa að ákveðnum breytingum en þó þannig breytingum að þær séu skynsamlegar og í eðlilegu samhengi við umhverfi sjávarútvegsins. Við vitum að með því að hrófla svona gífurlega mikið við honum eins og ríkisstjórnin er að gera með báðum þeim frumvörpum sem nú liggja fyrir er verið að rugga bátnum og miklu meira en það, það er verið að rugga allri þjóðarskútunni. Það er mín skoðun. Ég hvet fólk til að fara fram með þetta í huga.

Öðruvísi mér áður brá, ég get nú ekki annað en sagt það þegar ég hlusta á hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur tala um að verið sé að etja saman landsbyggðinni og höfuðborgarsvæðinu. Ef einhverjir hafa verið að gera það þá er það ríkisstjórnin sjálf. Það er ekki bara hægt að benda á sjávarútveginn sem slíkan heldur ekki síður tillögur ríkisstjórnarinnar til aðhalds í ríkisfjármálum, hvernig gripið var gróflega niður í niðurskurði á heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni o.s.frv. og þá ekki síst í kvennastörfum.

Ég tek heils hugar undir það með hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur að þetta er ekki bara landsbyggðarmál. Þetta er stórt samfélagsmáls og ekki síst eru hagsmunir höfuðborgarinnar og höfuðborgarsvæðisins hér undir. Þess vegna hef ég verið að draga það fram í ræðum mínum að mér finnst miður að sjá ekki þá hagsmunagæslu sem vera ætti af hálfu forustumanna þeirra sveitarfélaga sem eru með útgerð, eru með fyrirtæki sem tengjast sjávarútvegi á höfuðborgarsvæðinu, og hef ég nefnt Reykjavíkurborg og Hafnarfjörð til sögunnar.

Frú forseti. Ég vil hvetja þá sem mestu ráða í þessu máli til að hlusta á raddirnar sem hljómað hafa víða, ekki bara á Austurvelli í gær. Þær raddir hljóma í umsögnum. Allir vara við því að þetta mál nái fram að ganga þar sem það geti haft gríðarleg áhrif á hagsmuni allrar þjóðarinnar. En það er samt til vegur til að ná saman. Það gerum við með því að stíga fyrstu skrefin, setjast niður og fjalla málefnalega um þetta gríðarlega mikla hagsmunamál.