140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[11:20]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmanni varð tíðrætt í upphafi máls síns um virðingu fyrir skoðunum. Það var helst á henni að heyra að hún mæti meira þær raddir sem heyrst hafa í auglýsingaherferðinni, á áróðursfundunum og í öðru.

Ég vil spyrja hv. þingmann í fullri einlægni: Hvernig metur hún raddir hinna sem ekki hefur verið boðið að míkrófóninum og ekki til samráðs en létu til sín heyra á Austurvelli í gær? Hvernig metur hún það og hvernig telur hún að við eigum að bregðast við því ákalli sem barst frá Austurvelli í gær?

Þegar verið er að tala um muninn á þeim sem mæta á launum og hinum er ekki verið að gera lítið úr skoðunum heldur fyrst og fremst verið að vekja athygli á ákveðnum aðstöðumun og því atvinnurekendavaldi sem segja má að þessi sterku samtök LÍÚ hafi verið að beita í þessari baráttu. En spurningin er þessi: Hvernig metur hún raddir hinna sem ekki eru á launum og eru ekki starfsmenn LÍÚ og komu til að láta í sér heyra?

Þingmaðurinn ræðir síðan um gjaldtökuna og notar orð eins og að hún muni kollvarpa greininni. Ég vil spyrja þingmanninn: Hvernig er það hægt miðað við þann gjaldstofn og þá aðferðafræði sem lagt er upp með að tala um að þetta kollvarpi greininni? Gjaldstofninn sem reiknað er út frá er umframarður eftir að búið er að draga frá allan rekstrarkostnað útgerðarinnar, þar með launakostnað. Það er því algjörlega deginum ljósara að áróðurinn um að þetta muni rýra hlut sjómanna á ekki við nein rök að styðjast og getur ekki staðist miðað við þá árgreiðsluaðferð sem notuð er. Ég vil bara spyrja þingmanninn: Hvernig fær hún það heim og saman að sú árgreiðsluaðferð sem hér er notuð geti kollvarpað greininni?