140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[11:26]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Við lítum oft til annarra norrænna landa og annarra landa varðandi erfið mál til að fá fordæmi, til að læra af reynslu annarra þjóða. Ég vildi svo gjarnan gera það í þessu máli. Af hverju getum við ekki gert það? Af því að það er hvergi svona veiðigjald borgað í öðrum löndum. (Gripið fram í.) — Nei, það er hvergi gert, sjávarútvegur í öðrum löndum greiðir undantekningalaust ekki svona veiðiskatta, menn greiða sína skatta, tekjuskatta, fyrirtækjaskatta o.s.frv., eins og íslensk sjávarútvegsfyrirtæki gera í dag.

Í ljósi þess að við erum enn að fara inn á nýjar brautir með því frumvarpi sem við ræðum vil ég aftur hvetja forustumenn flokkanna, allra flokka, og þá sem ráða miklu í sjávarútvegsmálum til að setjast niður og finna skynsamlega leið til að hér verði sett hóflegt auðlindagjald sem kollvarpar ekki rekstri sjávarútvegsfyrirtækja. Fyrir okkur skiptir máli að hér sé sjávarútvegur sem skapi störf, (Forseti hringir.) skapi arðsemi og flytji gjaldeyri til landsins.