140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[11:27]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur fyrir ræðu hennar.

Fundurinn frá því í gær litar svolítið umræðuna í dag þar sem fleiri hundruð manna komu á Austurvöll til að mótmæla aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar, má segja, í landsmálunum, en þó einkum til að mótmæla þeim tveimur frumvörpum sem til stendur að koma í gegnum þingið í andstöðu við þorra þjóðarinnar.

Það er alveg hægt að tala um að þetta sé í andstöðu við þorra þjóðarinnar þegar litið er til þess hverjir hafa sent inn umsagnir um frumvarpið eins og þingmaðurinn fór yfir og minnti á að einungis hefði eitt samfylkingarfélag á Suðurlandi mælt með því að frumvörpin yrðu samþykkt. Það ætti að segja allt um gæði og innihald þessara frumvarpa.

Áðan fór fram mikil Evrópuumræða undir liðnum störf þingsins. Sjávarútvegur í Evrópusambandinu er gríðarlega styrktur af ríkjum sambandsins en okkar sjávarútvegur rekur sig sjálfur og hann rekur sig ekki bara sjálfur heldur skilar útgerðin himinháum skatttekjum til ríkissjóðs auk veiðigjalds sem samfylkingarmenn kjósa að líta ekki á. Eins og komið hefur fram kjósa þeir að muna ekki eftir að hafa verið í ríkisstjórn á árabilinu 2007–2009 því að það er alltaf látið líta svo út að sjávarútvegurinn skili engum tekjum til þjóðarbúsins. Það er talað eins og fyrst núna sé verið að taka upp auðlindarentu eða veiðigjald sem er hinn mesti misskilningur en lengi er hægt að halda fram röngum staðreyndum í þeirri von að fólk trúi þeim.

Hver er sýn hv. þingmanns verði Samfylkingunni að ósk sinni og við göngum í Evrópusambandið? Hvað verður þá um íslenskan sjávarútveg? (Forseti hringir.) Kemur hann til með að verða styrktur af ríkjum Evrópusambandsins? Hvernig á þá að vera hægt (Forseti hringir.) að innheimta þau gjöld sem verið er að leggja á samkvæmt þessu frumvarpi?