140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[11:33]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir með hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur um að eitthvað sé að hér. Ég hef varað við því þó að ég sé eindregið fylgjandi viðræðum við Evrópusambandið að verið sé að hrófla við þessum grunnatvinnuvegi þjóðarinnar meðan á þessum viðræðum stendur. Af hverju segi ég það? Jú, af því að þar liggja helstu hagsmunir okkar. Ég held að fyrirvarar flestra þeirra sem eru hlynntir viðræðunum og því að ganga í Evrópusambandið tengist sjávarútveginum.

Við megum ekki veikja samningsstöðu okkar með því að fara í illa ígrundaðar aðgerðir, að minnsta kosti eigum við ekki að fara út í aðgerðir sem ná ekki samhljómi meðal þjóðarinnar, hagsmunaaðila í stéttinni, hvað þá stjórnmálaflokka á þingi. Mér finnst það mjög misráðið hvernig ríkisstjórnin meðhöndlar sjávarútveginn á sama tíma og hún er í erfiðum og flóknum viðræðum við Evrópusambandið. Ég er hrædd um að með þessu brölti varðandi sjávarútveginn séum við að veikja stöðu okkar í samningaviðræðum við ESB.