140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[11:34]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir prýðilega ræðu. Það var gagnlegt og ágætt að hlusta á hana fara í gegnum þetta og vitna til ágætra umsagna og skoðana þeirra sem hlut eiga að máli. Við hlustum að sjálfsögðu grannt eftir skoðunum og ég get tekið undir alla nálgun þingmannsins til málsins.

Ég hef alltaf talað fyrir því að við eigum að fara ákaflega varlega og að við eigum ekki að gera þær breytingar sem raski stöðu greinarinnar, séu íþyngjandi eða umfram það sem hóflegt og skynsamlegt getur talist, eins og hún vitnaði hér í ræðu frá forstjóra HB Granda og það að við værum á réttri leið með reikniregluna. Þar er verið að taka auðlindagjaldið út frá stofni sem stendur fyrir utan rekstrarkostnað og allt annað, sem sagt hreinum umframhagnaði eftir 8% ávöxtun og frádrátt á launaliðum og öllu slíku þannig að eftir stæði hreinn hagnaður sem greinin gæti greitt af.

Okkar verkefni hér er að ná samstöðu um forsendur gjaldtökunnar. Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur ákváðu á sínum tíma að taka upp veiðigjald og það var skynsamleg ákvörðun enda er markmiðið gott og göfugt sem við erum öll sammála um, held ég, þ.e. að þjóðin öll fái hlutdeild í arðinum af nýtingu sameiginlegra auðlinda, sem sagt aðgengi tiltekinna einstaklinga og fyrirtækja af takmörkuðum auðlindum í eigu þjóðarinnar. Við erum alltaf að stýra nýtingunni eins og kostur er. Meginafstaða mín er sú að þessi gjaldtaka þurfi að vera til staðar, það er eðlilegt og nauðsynlegt af því að þjóðin á auðlindina og til að stýra aðganginum, halda öllu í skikki og að þjóðin fái hlutdeild í arðinum, en það má að sjálfsögðu ekki vera óhóflegt eða umfram það sem skynsamlegt getur talist þannig að greinin bogni einhvern veginn undan því.

Við erum öll að tala út frá sömu hlutunum og okkur greinir í rauninni ekki á um að það eigi að vera gjaldtaka af auðlindanýtingunni heldur hver hún eigi að vera en kannski aðallega um forsendurnar. Þess vegna spyr ég: Við hvað getur hv. þingmaður fellt sig í þessu efni þannig að við getum náð saman um málið, (Forseti hringir.) t.d. hvaða forsendur og hvaða upphæðir? Framsóknarflokkurinn talar um 10–11 milljarða, ríkisstjórnin um 15 milljarða fyrir þetta ár. Á hvaða nótum er hv. þingmaður í þessu efni?