140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[11:37]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð að segja að það er langt síðan þingfundur hefur byrjað jafn vel og í dag að mínu mati. Eitt og annað var rætt undir liðnum um störf þingsins, menn voru með skiptar skoðanir um það sem gerðist í gær og allt það, en hér koma fram þingmenn, ekki síst þá stjórnarþingmenn, hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson, líka Ólína Þorvarðardóttir og fleiri, sem ræða um það af skynsemi hvernig hægt sé að ná skynsamlegri niðurstöðu í þetta mál. Menn mega ekki fara áfram af einhverri kergju heldur miklu frekar raunsæi.

Hv. þingmaður spyr mig mjög eðlilegrar spurningar: Hvað er hægt að fella sig við? Menn eru að reyna að tala saman í ræðustól þingsins og mér finnst það til fyrirmyndar. Ég þakka hv. þingmanni, einum af leiðtogum Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi, fyrir nákvæmlega þessa spurningu.

Ég vil helst ekki nefna eina ákveðna tölu en ætla samt að leyfa mér það. Ég hef sett fyrirvara við það að við fáum ekki tækifæri til að ræða hitt frumvarpið samtímis. Mér finnst það skipta máli. Þegar við setjum fram tölur, erum við þá að setja fram þessar tölur miðað við núverandi umhverfi eða varðandi eitthvert væntanlegt umhverfi sem verður kannski samþykkt þá í næstu viku?

Ég leyfi mér að vona að menn fari skynsamlega og rólega í þessar breytingar. Rétt eins og forstjóri HB Granda tel ég að útvegurinn geti borgað meira, hóflegt gjald eins og hv. þingmaður talar um. Núna greiðir sjávarútvegurinn um það bil 4,5 eða 5 milljarða. Miðað við þær reikniforsendur sem gefnar eru í frumvarpinu vil ég leyfa mér að nefna tölurnar 9–10 milljarða. Ég tel að það sé hægt að ná saman um þetta. Ég heyri að Framsóknarflokkurinn hefur sínar hugmyndir en þetta byggir auðvitað á því að menn nái saman, nái sátt (Forseti hringir.) og samkomulagi og líka að menn fari þá ekki af stað með það frumvarp sem liggur nú í atvinnuveganefnd.