140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[11:40]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Já, það er alveg hárrétt hjá hv. þm. Björgvini G. Sigurðssyni, við þurfum að tala skýrt í þessu máli um leið og við gefum með ræðum okkar tilefni til þess að ætla að það sé hægt að ná þeirri sátt sem er svo mikilvægt að ná.

Ég deili þeirri skoðun með hv. þingmanni og mörgum öðrum landsmönnum sem meðal annars er sett fram í niðurstöðu auðlindanefndarinnar frá árinu 2000, í skýrslu sem mikil vinna var lögð í. Þar náðist þverpólitísk niðurstaða, leitað var til hagfræðinga, ýmissa sérfræðinga til að ná þeirri niðurstöðu. Það má gagnrýna það að á þeim tíu árum sem liðin eru síðan hún birtist hafi ekki allt náðst fram en við stigum þó ákveðin skref. Við settum á veiðigjald og ég hef ætíð verið þeirrar skoðunar að við eigum að hafa ákvæði í stjórnarskrá sem tengir þjóðina við auðlindirnar. Um allt þetta á að vera hægt að ná samkomulagi. Þetta er grunnstefið og þegar ég hef verið á pólitískum fundum hefur það verið meginkrafa fólksins, (Forseti hringir.) ekki umbylting á kerfinu sjálfu heldur að ákveðin réttlæting náist fram með hóflegu veiðigjaldi og auðlindaákvæði í stjórnarskrá.