140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[11:41]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Það var mögnuð sjón sem blasti við þeim sem lögðu leið sína niður að höfn í gær. Þar var saman kominn fjöldi fiskiskipa sem siglt höfðu til Reykjavíkur til þess að mótmæla þeim frumvörpum sem nú liggja fyrir og eru til umræðu.

Það er ljóst að sitt sýnist hverjum í þessu máli og ef maður reynir að kafa í grundvallarprinsippin í frumvörpunum virðist vera að hjá helstu meðmælendum frumvarpanna snúist málið um eitthvað meira en lítur út fyrir á yfirborðinu. Það kemur fram að innheimta eigi eitthvert auðlindagjald af útgerðinni til þess að greiða fyrir afnot af henni en málið virðist eiga sér mun dýpri pólitískar rætur. Við sáum það best á Austurvelli í gær þar sem meðmælendur frumvarpanna héldu á alls konar skiltum. Á þessum skiltum mátti lesa mismunandi skilaboð, meðal annars eftirfarandi:

„Alvöru sjómenn láta ekki kúga sig.“ „LÍÚ er ekki Hrói höttur.“ „Klærnar burt úr auðlindinni.“

Hvað skyldi það þýða? Kannski má setja það í samhengi við ótrúlegan atburð sem við urðum vitni að fyrir framan þinghúsið í gær og sýnd er mynd af í Morgunblaðinu í dag þar sem þingflokksformenn hittu Adolf Guðmundsson, formann LÍÚ. Þar afhenti Magnús Orri Schram, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, Adolf Sölku Völku eftir Halldór Laxness. Það átti að vera táknræn athöfn. Setjum það í samhengi við hver það var sem afhenti Adolf Guðmundssyni bókina góðu.

Hv. þm. Magnús Orri Schram hefur margoft sagt í ræðustól Alþingis: Við jafnaðarmenn. Hann hefur haldið því mjög vel til haga í þinginu að hann sé jafnaðarmaður. En skoðum aðeins boðskapinn sem fólst í afhendingu bókarinnar til forustumanns Landssambands íslenskra útvegsmanna. Þá er gott að kíkja á þann boðskap sem er í Sölku Völku.

Eins og flestir vita er Salka Valka skrifuð af eina nóbelsverðlaunaskáldinu okkar, Halldóri Laxness. Salka Valka var ung kona í sjávarþorpi þar sem menn máttu búa við kúgun og arðrán af hendi útgerðarmannsins Bogesen. Ef maður skoðar aðeins táknmyndirnar sem birtast í Sölku Völku og Bogesen má segja að Salka Valka sé táknmynd hinnar kúguðu alþýðu og Bogesen táknmynd stórkapítalistans sem arðrændi alþýðuna. Það var sett fram í sérstökum tilgangi hjá Halldóri Laxness. Hér eru engar tilviljanir á ferðinni vegna þess að Salka Valka lýsir þjóðfélagi sem höfundurinn hélt fram að væri á Íslandi, þ.e. þjóðfélagi alþýðu og arðræningja. Boðskapurinn var sá að alþýðan ætti að varpa af sér okinu og rísa upp gegn arðræningjunum. Ég tengi það strax við baráttu kommúnista á fyrri hluta síðustu aldar.

Það er ekki nóg með að Bogesen, arðræninginn, sé útgerðarmaður heldur ber hann líka danskt ættarnafn auk þess sem hann er einfættur, sem er hámarkið. Niðurlæging Sölku Völku verður algjör þegar hún beygir sig niður að Bogesen og skrúfar af honum staurfótinn.

Táknmyndirnar eru augljósar, þarna beygir alþýðan sig fyrir arðræningjanum og á svo niðurlægjandi hátt sem lýst er mjög vel í bókinni. Boðskapurinn sem þingflokksformaður Samfylkingarinnar hefði getað komið á framfæri við útgerðarmenn á fundinum í gær var sá að útgerðarmennirnir væru arðræningjar og sjómennirnir og landverkafólkið væru alþýðan sem berðist á móti. Að verið væri að auðmýkja alþýðuna þegar sjómenn sigldu til Reykjavíkur á skipum sínum eða ækju hingað hvaðanæva að af landinu til þess að mótmæla þeim frumvörpum sem hér liggja fyrir. Þar væri verið að kúga landverkafólk og sjómenn, eins og hv. þingmenn sögðu í ræðustól, og nota þá sem mannlega skildi í baráttu útvegsmanna, eða réttara sagt baráttu Bogesens fyrir því að halda sínum hlut, arðræningjans.

Hv. þm. Magnús Orri Schram, sem segir oft í ræðustól að hann sé jafnaðarmaður, setti þarna fram boðskap hreinna kommúnista, þannig að eitthvað hefur þetta skolast til hjá blessuðum þingmanninum. En það er gaman að geta tengt þetta við bókmenntasögu okkar Íslendinga og baráttuna sem var á fyrri hluta síðustu aldar á milli kapítalista og kommúnista, getum við sagt. En við skulum gefa okkur það að hv. þm. Magnús Orri Schram hafi vitað hvaða boðskap hann færði þarna fram.

Ólöf Ýr Lárusdóttir, framkvæmdastjóri Vélfangs á Ólafsfirði, hélt merkilega ræðu á Austurvelli í gær. Hún tók það fram að hún væri ekki pólitísk manneskja í flokkspólitískum skilningi. Hún tók það sérstaklega fram að hún hefði skilað auðu í síðustu kosningum og mundi sennilega gera það aftur. Hún orðaði það ágætlega og við sem erum komin á minn aldur, í kringum fimmtugt, munum mjög vel lýsinguna í Sölku Völku, á baráttunni milli alþýðunnar og arðræningjanna, sem Salka Valka og Bogesen standa fyrir. Ólöf setti hlutina í nútímabúning og sagði að miðað við umræðuna væru útgerðarmenn nú ígildi Hells Angels. Í dag þýðir lítið fyrir fólk að halda því fram að arðræningjarnir séu slæmir en aftur á móti tengir fólk í dag mun betur við ógnir eins og Hells Angels. Það var ágætlega að orði komist hjá Ólöfu Ýr Lárusdóttur og varpaði ljósi orðræðuna í dag.

Það var jafnframt ákaflega merkilegt að sjá hvernig fjölmiðlarnir tóku á málinu. Í Ríkisútvarpinu mátti til dæmis skilja sem svo að þarna hefði komið saman einhver hópur fólks, meðmælenda og mótmælenda, og að þetta hefðu verið svipað stórir hópar. Svo var tekið viðtal við meðmælendur þessara frumvarpa. Það varpaði langt því frá réttu ljósi á það sem gerðist í raun.

Á Smugunni, málgagni Vinstri grænna, í morgun er því haldið fram að þær aðgerðir sem voru hér í gær séu dýrasta flopp sögunnar. Þegar sjómenn, landverkafólk og útgerðarmenn vilja koma sjónarmiðum sínum á framfæri á tvö þúsund manna útifundi fyrir framan Alþingishúsið er það kallað dýrasta flopp sögunnar.

Í gær hringdi í mig sjómaður frá Seyðisfirði sem ég þekki vel. Hann var býsna reiður, honum var mikið niðri fyrir. Hann sagði: Hvernig er hægt að stoppa þessi frumvörp? Þau munu grafa undan okkur á Seyðisfirði og við þurfum enga hjálp frá ríkisstjórninni við að leggja þennan stað í eyði, hann er að leggjast í eyði. Við erum einfær um að leggja þennan stað í eyði. Hann sagði: Tryggvi, það er algjörlega lífsnauðsynlegt að stöðva þetta. Það mun marka endalok búsetu hérna ef frumvörpin fara í gegn. Það var mikill þungi í orðum hans.

Ég talaði við gríðarlega marga úti á Austurvelli í gær og voru allir á sama máli um að þessi frumvörp settu atvinnu þeirra í hættu. Þeir voru sammála um að þau settu byggðarlög þeirra í hættu og að það væri algjört forgangsatriði að þeim yrði lagt, einkum frumvarpinu um fiskveiðistjórn. Lýsingin sem Halldór Laxness gaf á kúgun arðræningjanna á alþýðunni, sem birtist í því þegar Salka Valka skrúfaði tréfótinn af Bogesen, átti því alls ekki við hér í gær, þrátt fyrir að margir héldu því fram að verið væri að nota sjómenn og landverkafólk sem mannlega skildi og þrátt fyrir að sagt væri að útgerðarmenn væru að kúga þetta fólk. Atburðirnir sem við urðum vitni að í gær var ekki Salka Valka að skrúfa fótinn af Bogesen þrátt fyrir að þingflokksformaður Samfylkingarinnar héldi því fram, maðurinn sem kallar sig jafnaðarmann. Hann segir gjarnan: Við jafnaðarmenn. Eini boðskapurinn sem hv. þingmaður gat fært talsmanni Landssambands útvegsmanna var Salka Valka, sem er táknmynd kúgunar arðræningjans á alþýðunni. Þannig leit það nú út.

Það er ljóst að þessi frumvörp munu setja útgerðarfyrirtæki í mikinn vanda. Í útreikningum sem ríkisbankinn, Landsbanki Íslands, hefur gert, þar sem notaðar eru upplýsingar frá 134 fyrirtækjum sem ráða yfir um 90% kvótans við íslensku fiskimiðin, er talið að af þessum 134 fyrirtækjum muni 74 fyrirtæki ekki þola það ef þessi frumvörp verða að lögum, og að þessi fyrirtæki muni verða gjaldþrota í kjölfarið. Það eru áhyggjurnar sem fólkið lýsti úti á Austurvelli í gær, að útgerðirnar þoli ekki slíka gjaldtöku og breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu. Landsbankinn heldur því jafnframt fram og rökstyður það með ítarlegum útreikningum að hann þurfi að afskrifa í kringum 31 þús. milljónir vegna þessara frumvarpa því að þessi 74 fyrirtæki fari á hausinn. Á sama tíma kemur ríkisstjórnin fram með hugmyndir um að taka gríðarmikla peninga út úr bönkunum og talar um þá sem góða söluvöru. Eitthvað vantar nú upp á samhengið og rökhugsunina þar vegna þess að það er algjörlega ljóst að ef Landsbankinn og hinir bankarnir þurfa að afskrifa þessar gríðarlegu upphæðir er ekki neitt eftir í arð og verðmæti þessara fjármálafyrirtækja verður mun minna fyrir vikið.

Vanhugsunin í þessu öllu saman er því mjög sláandi. En þegar maður setur þetta í samhengi við þá orðræðu sem verið hefur í þinginu og komið hefur fram í máli hv. þingmanna eins og Ólínu Þorvarðardóttur, Skúla Helgasonar, Magnúsar Orra Schrams og fleiri þingmanna, þegar maður setur þetta í samhengi við það að þingflokksformaður Samfylkingarinnar líkir þessari baráttu við baráttu Sölku Völku og Bogesens, þ.e. baráttu milli alþýðunnar og arðræningjanna, og þegar maður les það sem stóð á skilti róttæklinganna sem mættu á þennan góða samstöðufund í gær og setur það í samhengi við þær niðurstöður og umsagnir sem komið hafa fram fer að renna upp fyrir manni að þetta snýst ekkert endilega um að skattleggja auðlindina. Þetta snýst ekkert endilega um að útgerðir þurfi að greiða fyrir aðganginn. Kannski snýst þetta eftir allt saman um það sem lýst er með samskiptum Sölku Völku og Bogesens, kannski snýst þetta um að knésetja útgerðina og að alþýðan geti tekið þetta yfir. Kannski er þetta endurómur frá síðustu öld þegar stéttabaráttan stóð sem hæst og menn vildu breyta algjörlega um stjórnskipulag og fara yfir í kommúnisma, enda hafa margar aðgerðir þessarar ríkisstjórnar sýnt að það virðist vera hinn raunverulegi vilji hennar.