140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[12:04]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa spurningu. Stóra blekkingin í þessu öllu saman er að því er haldið fram að hér sé verið að fara að innheimta 15 milljarða í veiðigjald. Það er ljóst að á næstu fimm árum mun þetta veiðigjald fara úr 15 milljörðum í 21 milljarð þannig að það er hreint og beint blekking að tala um að lítið beri á milli. Við erum enn að tala um að það veiðigjald sem útgerðin gæti borið og væri ásættanlegt, það væri ekki auðvelt en kannski ásættanlegt í nafni friðar getum við sagt, er helmingi lægra en það veiðigjald sem er lagt hérna til. Það er verið að leggja til 21 milljarð, ekki 15, vegna þess að aðlögunin er núna fimm ár og þeir sem eitthvert innsæi hafa í fyrirtækjarekstur vita að þetta er ekki eins og í tólf spora kerfinu þar sem menn láta hverjum degi nægja sínar þjáningar þegar þeir gera rekstraráætlanir. Menn gera þær mörg ár fram í tímann. Halda menn til dæmis að það útgerðarfélag sem var að fá hið glæsilega skip Heimaey VE 1 hafi bara skoðað hvernig hlutirnir yrðu næsta árið? Nei, það er með margra ára plön.

Hvað varðar þennan 21 milljarð fór ég aðeins yfir það í ræðunni að Landsbankinn hefur á trúverðugan hátt sýnt fram á að 74 fyrirtæki af 124 sem ráða yfir 90% kvótans munu ekki ráða við það.