140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[12:06]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þetta svar. Já, það er nefnilega þannig að eftir því sem við þingmenn ræðum þessi mál meira á þingi verður æ augljósara á hve veikum grunni þetta frumvarp er reist.

Vinstri menn hafa aldrei skilið rekstur. Vinstri menn hafa heldur aldrei skilið samspil skattheimtu og skatttekna, samanber það sem nú hefur komið í ljós með innlenda virðisaukaskattskerfið. 40 milljarðar hafa horfið út úr innlenda virðisaukaskattskerfinu síðan efra þrep skattsins var hækkað í 25,5%. Þetta skrifast alfarið á hæstv. þáverandi fjármálaráðherra, Steingrím J. Sigfússon.

Hér er komið enn eitt skattafrumvarpið. Þingmaðurinn fór yfir það að þeir sem standa þó í nýfjárfestingum í sjávarútveginum gera langtímaplön. En það er náttúrlega óþolandi fyrir þessa aðila að geta ekki gert langtímaplön vegna þess að ríkisstjórnin er sífellt að breyta leikreglunum sem á að spila eftir og setja á nýja og nýja skatta og kippa þar með fótunum undan rekstri þessara fyrirtækja. Eins og þingmaðurinn veit, enda sjálfur prófessor í hagfræði, er þetta sett inn sem óvissuþáttur í hagfræðilíkan Porters um það hvernig stjórnvöld starfa í viðkomandi ríki. Þegar ég var að læra hagfræði var sagt: Nei, það eru svo stabíl stjórnvöld hér á landi, þetta á ekki við og þetta er ekki óvissuþáttur fyrir fyrirtækin. En nú er þetta orðinn raunveruleiki á Íslandi. Það var alltaf talað um að þetta væri bara svona einhvers staðar í Afríkulöndum sem þyrftu að taka þennan þátt inn í þegar erlendir aðilar væru að meta fjárfestingu í viðkomandi ríki.

Þetta er staðreyndin á Íslandi og árið er 2012 en meinið er að hér er vinstri stjórn sem ætlar að skatta atvinnuveginn í drep. Eins og ég segi er óþolandi hvernig þessum málum er komið fyrir hér á landi. Tími minn er búinn, ég ætlaði að koma með spurningu um það að ríki Evrópusambandsins væru með ríkisstyrktan sjávarútveg en við rekum okkar sjávarútveg sjálf: Hvers vegna er þá Evrópusambandið (Forseti hringir.) álitlegt fyrir okkur?