140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[12:20]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Því hefur lengi verið haldið fram, sérstaklega af hv. þingmönnum stjórnarflokkanna, að Sjálfstæðisflokkurinn sé einhvers konar taglhnýtingur LÍÚ í sjávarútvegsmálum. Við þingmenn stjórnarandstöðunnar höfum verið vændir um það í þessari umræðu að vera gæslumenn sérhagsmuna á kostnað almannahagsmuna. Þetta er að sjálfsögðu alrangt.

Auðvitað er það þannig að allir sem ræða af einhverri skynsemi um sjávarútveginn, um málefni þessarar grunnatvinnugreinar þjóðarinnar, gera sér grein fyrir því að miklir þjóðarhagsmunir eru undir. Það er mjög mikilvægt að þess sé gætt að sá árangur sem náðst hefur í íslenskum sjávarútvegi verði varinn. Við höfum farið í gegnum mikil breytingaskeið alveg frá því að við settum kvótakerfið á í byrjun níunda áratugarins, þurftum að gera það þá vegna þess að sjálfbærri nýtingu helstu nytjastofna okkar var stofnað í voða.

Það má segja að þó að liðin séu þessi ár, 28 ára eða um það bil frá því að við stigum fyrstu skrefin, hafi aðlögunin tekið langan tíma, en markmiðin hafa náðst. Við höfum náð þeim markmiðum að skapa mikla hagkvæmni, mikla arðsemi í sjávarútveginum svo eftir er tekið um allan heim. Við erum án nokkurs vafa í forustuhlutverki í heiminum í nýtingu sjávarauðlinda, við erum í forustu meðal þjóða sem telja sig vera sjávarútvegsþjóðir. Þetta er gríðarlegur árangur. Þegar gengið er til breytinga á því kerfi verðum við auðvitað að vanda mjög til verka. Við erum jú að breyta því sem er best, við erum að breyta liðinu sem er í efsta sæti. Við ætlum að skipta út mönnum og við verðum að vanda það mjög vel og vera örugg um að þeir sem koma inn á geti haldið uppi forustufána okkar áfram.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur lengst af þessum tíma verið í forustuhlutverki í íslenskum stjórnmálum og hefur því án efa leitt þessar breytingar, lengst af með Framsóknarflokknum og á því kannski á hinum pólitíska vettvangi stærstan þátt í því að svo vel hefur tekist til. Oft hafa þessar breytingar verið unnar í sátt og það hefur verið leiðarljós Sjálfstæðisflokksins lengst af í gegnum þennan breytingatíma að reyna að gera breytingarnar í eins víðtækri sátt og hægt hefur verið þó vissulega hafi verið deilt um málin mjög reglulega á þessu tímabili.

Það má ekki undanskilja kannski eitt mikilvægasta skrefið í þessu sem var stigið árið 1991 þegar framsalið var virkjað í þessu kerfi. Það var klárlega eitt mikilvægasta skrefið og jók mjög á alla hagræðingu í greininni. Það var þó gert í tíð vinstri flokkanna. Það er alveg eins og þetta fólk sem talar á þingi í dag með þessum frumvörpum gleymi mikilvægum þætti sínum í málinu. Sjálfstæðisflokkurinn greiddi atkvæði gegn því frumvarpi á sínum tíma en það var kannski ekki á grundvelli framsalsins heldur út af öðrum þáttum í því frumvarpi sem flokkurinn treysti sér ekki til að styðja það. Framsalið markaði nýtt upphaf í hagræðingu í sjávarútvegi og leiddi inn miklar breytingar í átt til hagræðis og aukinnar arðsemi í greininni, aukinnar verðmætasköpunar, aukinna útflutningstekna og hefur því spilað gríðarlega stórt hlutverk í öllu þessu ferli. Við fækkuðum meðal annars í fiskiskipaflotanum að ég held úr 2.550 fiskiskipum í rúmlega 1.100 á tíu, tólf ára tímabili. Það var reyndar gert á kostnað greinarinnar sjálfrar, við skattlögðum greinina sérstaklega á þeim tíma og létum hana greiða fyrir úreldingu skipanna.

Það er með öðrum hætti en til dæmis Evrópusambandið stendur að málum í dag þar sem þeir kasta hundruðum milljarða í að úrelda fiskiskipaflota sinn, hundruðum milljarða, en ná litlum árangri. Skipum hefur ekki fækkað og sjómönnum ekki heldur. Við gætum haft miklu fleiri starfsmenn í íslenskum sjávarútveg í dag en við erum með og aukið þannig kostnað greinarinnar á hverja sóknareiningu vegna þess að aflinn mundi ekkert aukast, kakan mundi ekkert stækka, en það væri verið að skipta henni á milli miklu fleiri.

Í öllu þessu ferli má segja að stjórnvöld hafi á vissan hátt brugðist og það verða allir stjórnmálaflokkar að taka á sig og ekki síst Sjálfstæðisflokkurinn, hann verður að kannast við sína ábyrgð í því. Menn brugðust í því að skapa önnur störf. Á sama tíma og unnið var að markmiðum um hagræðingu í sjávarútvegi brugðust menn í því að skapa önnur störf, skapa annan starfsvettvang fyrir fólkið úti á landi. Þess vegna varð þessi byggðaröskun, þess vegna varð þetta rót og hreyfingar á aflaheimildum á milli sveitarfélaga, milli svæða, gátu haft miklar afleiðingar. En það er ekki kvótakerfinu að kenna í sjálfu sér, það er þessi hagræðing sem hefur tekist svo vel sem er ástæðan fyrir því.

Eins og ég sagði áðan hafa hv. stjórnarþingmenn gjarnan brigslað meðal annars þingmönnum Sjálfstæðisflokksins um að vera gæslumenn sérhagsmuna. En ef við lítum aðeins á það hvaða breytingar hafa verið gerðar, sérstaklega í stjórnartíð Sjálfstæðisflokks og framsóknarmanna, um hvað snerust þær? Þær snerust fyrst og fremst um að tryggja útgerð smærri báta í landinu. Þær snerust um kjördæmin, þær snerust um landsbyggðina, byggðarlögin. Ef við vildum leita hámarkshagræðis í greininni hefðum við ekki gert þetta. Þá hefðum við ekki tryggt mönnum línuívilnun, byggðakvóta, skelbætur og allt það sem hægt er upp að telja til þess að tryggja í raun rekstur smábátaútgerðar í landinu. Þá hefðum við farið aðrar leiðir. Ef þeir stjórnarþingmenn sem eru á þingi núna og gagnrýna okkur fyrir gæslu sérhagsmuna vildu vera sjálfum sér samkvæmir og sannir í málflutningi sínum mundu þeir gagnrýna okkur fyrir það að hafa staðið við bakið á smábátaútgerð í landinu, ekki LÍÚ, vegna þess að allar þær helstu breytingar sem við höfum staðið fyrir eru í þágu smábátaútgerðar á kostnað meðalstórra og stærri útgerða.

Þetta eru staðreyndir málsins og enn og aftur verður manni hugsað til þess, virðulegi forseti, hvort hv. stjórnarþingmenn sem tala eins og þeir gera í þessari umræðu viti ekki betur eða hvort þetta sé gert í einhverjum pólitískum tilgangi. Þetta er mjög hvimleitt og ef við ætlum að ná einhverri sátt til lengri tíma um mikilvægustu atvinnugreina landsins, grunnatvinnuveg (Forseti hringir.) þjóðarinnar verða menn að láta af þessum málflutningi, taka umræðuna upp úr þessum pólitísku förum og fara að ræða af skynsemi (Forseti hringir.) og heiðarleika um þessi mál.