140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[12:33]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa spurningu. Það er staðreynd að það kerfi sem við höfum byggt upp núna í hátt í 30 ár hefur skapað þann rekstrargrundvöll fyrir íslensk sjávarútvegsfyrirtæki sem þau búa að og þau hafa unnið að því mjög skipulega á síðustu árum að hámarka verðmæti aflans, hámarka verðmæti auðlindarinnar. Vegna þess að fyrirtækin hafa getað gengið að ákveðnum nýtingarheimildum vísum hafa þau getað stýrt veiðum og vegna þess að mörg fyrirtæki eru með veiðar og vinnslu saman hafa þau getað stýrt veiðum og unnið fiskinn eftir þörfum markaðarins. Þetta er forskot sem íslenskur sjávarútvegur hefur og íslenskt kerfi í sjávarútvegi hefur umfram það kerfi sem margar þjóðir vinna eftir.

Afleiðing þessa er sú að við erum að fá hæsta verð fyrir sjávarafurðir í heiminum. Það er því ekki bara þannig að okkur hafi tekist með skynsamlegum hætti að nýta auðlindina, eftir því sem við höfum lært betur á hana, á nytjastofnana og umhverfi þeirra, hefur okkur tekist að byggja þá upp og nýta þá með skynsamlegri hætti, heldur höfum við líka náð algjöru forustuhlutverki í verðmætasköpun. Það er augljóst að með þessum frumvörpum er verið að taka skref aftur á bak. Þetta mun hafa mikil áhrif á getu fyrirtækjanna til þess að leiða það mikla markaðsstarf sem þau hafa staðið fyrir og hefur verið á þeirra kostnað, ekki ríkisstyrkt eins og í öðrum löndum. Ég vil þar minna til dæmis á að kerfið í Noregi er þannig að þar eru (Forseti hringir.) borgaðir milljarðar á ári inn í sameiginlegt markaðsstarf þessara fyrirtækja. Samt sem áður náum við umtalsvert hærra verði fyrir afurðir okkar en Norðmenn gera á sömu mörkuðum.