140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[13:31]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (frh.):

Virðulegi forseti. Fyrir matarhlé fór ég aðeins yfir byggðahugsunina og þær tillögur sem hafa komið fram meðal annars hjá fyrrverandi hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um að veiðigjaldið rynni á einhvern hátt beint til byggða landsins og velti því jafnframt upp hvers vegna vikið hafi verið út frá þessu.

Ég las upp ályktun frá fjórðungsþingi Vestfirðinga sem haldið var í Bolungarvík 2.–3. september 2011 og mig langar að lesa það aftur, með leyfi forseta:

„56. fjórðungsþing Vestfirðinga haldið í Bolungarvík 2.–3. september 2011 skorar á Alþingi að tryggja að það auðlindagjald sem nú er innheimt af vestfirskum aflaheimildum og öll aukning þess renni til uppbyggingar atvinnulífs á Vestfjörðum. Auðlindagjaldið renni til rannsókna, nýsköpunar og í fjárfestingarsjóð fyrir vestfirskar byggðir.“

Frú forseti. Eins og ég kom inn á í ræðu minni fyrir hádegishlé eru áhyggjur margra af veiðigjaldinu þær að það muni virka sem eins konar landsbyggðarskattur. Þetta kemur fram í fjölda umsagna sem hafa borist um málið, meðal annars frá Samtökum sveitarfélaga á Norðurlandi vestra þar sem menn hafa áhyggjur af því að horfið hafi verið frá mikilvægum byggðatengingum. Í þeirri umsögn segir, með leyfi forseta:

„Engum dylst nauðsyn þess að gera verður breytingar á núverandi fiskveiðistjórnarkerfi til að ná betri sátt um einn af grunnatvinnuvegum þjóðarinnar og tryggja verður þjóðareign á sjávarauðlindum. Sú „sátt“ getur ekki orðið eingöngu á kostnað sjávarbyggða og landsbyggðarinnar.“

Frú forseti. Það eru Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra sem senda frá sér þessa ályktun. Formaður þeirra samtaka að ég hygg, ef ekki hafa orðið breytingar þar á, kemur úr Vinstri hreyfingunni – grænu framboði. Það er því alveg ljóst að mjög margir hafa verulegar áhyggjur af því að veiðigjöldin eins og þau eru sett upp í dag muni verða þungur baggi fyrir landsbyggðina. Margir hafa fjallað um það í ræðum sínum og hefur mikið verið fjallað um að erfitt verði fyrir mörg fyrirtæki að greiða þennan skatt, hann sé of hár. Og sveitarfélögin hafa einnig verið með slíkar áhyggjur.

Fleiri sveitarfélög hafa sent frá sér umsagnir á svipuðum nótum, Vesturbyggð, Grundarfjörður, Snæfellsbær, Tálknafjörður og áfram mætti telja.

Ef við sem höfum verið að gagnrýna uppsetninguna á þessu verðum sökuð um að vera gæslumenn einhverra þá get ég með góðri samvisku sagt að hlutverk okkar er að vera gæslumenn byggða landsins rétt eins og þeirra sveitarfélaga sem hafa sent umsagnir inn um þetta. Varla eru þessi sveitarfélög öll handbendi LÍÚ eins og látið hefur verið í veðri vaka, fjöldi sveitarfélaga allt í kringum landið. Eru hv. stjórnarliðar að halda því fram að þeim sveitarfélögum sé stýrt úr höfuðstöðvum LÍÚ? Alls ekki. Þetta eru sveitarfélög og sveitarstjórnarmenn sem eru kjörnir af fólki í byggðarlögunum til að gæta hagsmuna byggðarlaga sinna og það eru þau sveitarfélög sem hafa verið að láta í sér heyra að undanförnu. Á Austurvelli í gær talaði einn sveitarstjóri í litlu sjávarplássi úti á landi. Er sá sveitarstjóri að gæta hagsmuna LÍÚ? Eru þau sveitarfélög að gæta hagsmuna LÍÚ? Nei, þau eru að gæta hagsmuna byggðarlaga sinna. Þau eru að gæta hagsmuna landsbyggðarinnar og er ekki vanþörf á, frú forseti, því að við höfum orðið vitni að því í tíð núverandi ríkisstjórnar að gengið hefur verið mjög á landsbyggðina eins og ég kom inn á í máli mínu áðan. Þetta snýst á engan hátt um það að etja saman fólki sem búsett er í Reykjavík og fólki sem búsett er á landsbyggðinni. Þetta snýst um það að átta sig á þeim raunveruleika sem blasir við mörgum landsbyggðarsveitarfélögum sem eru komin á þann stað í dag að ekki má mikið undan halla og skort hefur á töluverðan skilning hjá ríkisstjórninni á vanda þessara sveitarfélaga. Við höfum séð það í fjárlagafrumvörpunum sem hafa birst frá ríkisstjórninni. Við höfum séð það líka í viljaleysinu að láta fara fram einhvers konar byggðaúttekt á þessu máli og á fjárlagafrumvörpum undanfarinna ára.

Nú er svo komið, frú forseti, að mörg þessi sveitarfélög, fólkið í byggðum landsins getur ekki búið við þetta lengur. Það er ekki mögulegt að horfa lengur upp á það hvernig málum er stillt upp af hæstv. ríkisstjórn og það er þetta sem er alvarleiki málsins fyrir landsbyggðina.

Eins og ég sagði áðan er mjög sérstakt að fylgjast með þessu. Í umræðum hefur komið fram, meðal annars hjá hv. þm. Jóni Bjarnasyni, töluvert mikil gagnrýni á það að horfið hefði verið frá byggðahugsuninni, byggðatengingunum sem birtust í þeim frumvörpum sem voru í vinnslu í ríkisstjórninni á sínum tíma. Og það er mjög sérstakt að verða vitni að því að núverandi hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skuli hafa vikið frá þeim byggðatengingum sem þar voru inni. Þessi ágæti hv. þingmaður hefur flutt breytingartillögu sem felur það í sér að koma byggðatengingum aftur inn í þetta mál, en ótrúlegt að það þurfi að gerast með þeim hætti að ríkisstjórnin skuli ekki gera það sjálf, að tryggja það að þessir fjármunir renni beint til byggða landsins. Það fær mann óneitanlega til að velta því upp.

Ágætur stjórnarliði, hv. þingmaður Samfylkingarinnar, Sigmundur Ernir Rúnarsson, sagði fyrr í þessari umræðu að veiðigjaldið væri til þess hugsað að styrkja og efla landsbyggðina. Maður veltir því óneitanlega fyrir sér hvort það séu svona meira draumórar að menn segi það að þetta styrki á einhvern hátt landsbyggðina. Eins og þetta er sett upp og eins og sveitarfélögin horfa á málin, þ.e. hvort veiðigjaldið muni styrkja byggðarlögin — þau eru búin að kynna sér þessi frumvörp rétt eins og við þingmenn — þá komast þau ekki að þeirri niðurstöðu að þetta muni styrkja landsbyggðina.

Það er erfitt hjá íbúum þessara sveitarfélaga að horfa upp á það aftur og aftur að þurfa að vera í varnarbaráttu gagnvart hæstv. ríkisstjórn. Nýlega bárust fréttir af lokun útibúa Landsbankans sem er að stærstum hluta í eigu íslenska ríkisins. Öll þau sveitarfélög sem hafa sent inn umsagnir um þetta mál hafa miklar efasemdir og hafa miklar áhyggjur af sveitarfélögum sínum. Ég held að það eigi vel við það sem kemur fram í umsögn Sveitarfélagsins Skagafjarðar og undir það ritar byggðarráð Skagafjarðar 18. apríl 2012. Í niðurlagi þar segir, með leyfi frú forseta:

„Undirritaðir telja að varnaðarorð sem fylgja frumvörpunum séu meira en næg ástæða fyrir alþingismenn til að leggja málin til hliðar frekar en að stuðla að því að lögfesta þau og stuðla þannig að „umhleypingum“ með alvarlegum afleiðingum fyrir fólk og fyrirtæki í sjávarútvegi landsins, m.a. mögulegri lækkun launa sjómanna og fiskverkafólks, lækkun útsvarstekna sveitarfélaga, minni fjárfestingargetu sjávarútvegsfyrirtækja á landsbyggðinni og þar með minni atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni en nú er. Við slíkt verður ekki unað.“

Undir þetta ritar öll sveitarstjórnin. Einn sveitarstjórnarfulltrúi var reyndar með sérbókun en tók jafnframt undir þetta og þar á meðal oddviti byggðarráðs sem kemur frá Vinstri hreyfingunni – grænu framboði, sama flokki og hæstv. sjávarútvegs- landbúnaðarráðherra.

Nú er komið að því, frú forseti, að við verðum að fara að taka höndum saman um þetta mál, koma því í réttan farveg. Það er á engan hátt hægt að túlka það svo að þeir sem tala á þann veg séu mótfallnir því að lögð séu á einhvers konar veiðigjöld.