140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[13:42]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í umræðunni um þetta mál hefur borið mikið á því að hallað er réttu máli, og það á svo sem við um fleiri mál hér á þingi. Eitt er að takast á um þingmál sem við höfum misjafnar skoðanir á en öllu alvarlegra er þegar þingmenn eru komnir á það plan að þeir eru jafnvel tilbúnir til að reka rýting í bakið á mönnum persónulega, skjóta fyrst og spyrja svo. Þetta er auðvitað mikið níðingsbragð í þeim tilfellum en sérstaklega er það ábyrgðarleysi af hálfu hv. þingmanna sem slíkan málflutning stunda, ábyrgðarleysi gagnvart þingi og þjóð. Mörgum þingmönnum er auðvitað ofboðið og þeir neita jafnvel að eiga orðastað við hv. þingmenn sem koma svona fram.

Af hverju nefni ég þetta, virðulegi forseti? Vegna þess að í umræðunni hefur þingmönnum Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins verið borið það á brýn að vera taglhnýtingar LÍÚ, gæslumenn sérhagsmuna á kostnað þjóðarhagsmuna. Þetta eru mikil ósannindi.

Mig langar að spyrja hv. þm. Ásmund Einar Daðason hvort hann sé ekki sammála mér í því að þær breytingar sem hafa verið gerðar á fiskveiðistjórnarkerfinu í tíð þeirra flokka hafi einmitt verið smábátaútgerð og byggðunum í landinu til hagsbóta, fyrst og fremst hafi verið horft til þeirra þátta, og að þær breytingar hafi í raun allar verið á kostnað stærri útgerða, þeirra sem skipa sér innan LÍÚ. Aflaheimildir hafi einmitt verið teknar frá þeim útgerðarflokkum og færðar til smábátanna, þannig að ef menn sem kalla okkur (Forseti hringir.) gæslumenn sérhagsmuna vildu nú fara með sannleika málsins þá ættu þeir að kalla okkur (Forseti hringir.) gæslumenn sérhagsmuna smábátaútgerðar í landinu og byggðarlaganna í landinu.