140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[13:48]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég dreg á engan hátt í efa þær umsagnir sem berast frá sveitarfélögum, frá verkalýðsfélögum, frá einstaklingum og þeim sem hafa samband við okkur. Ég dreg ekki í efa áhyggjur manna hvað þetta snertir, að þær áhyggjur séu raunverulegar eins og ég rakti í máli mínu. Það er raunar til skammar að tala um að þeir aðilar og þessi sveitarfélög séu á einhvern hátt taglhnýtingar, af því að hv. þingmaður notaði það orðalag, við Landssamband íslenskra útvegsmanna.

Hins vegar kann það vel að vera hvort sem það er inni á Alþingi eða annars staðar að einhverjir einstaklingar vilji ekki sjá neinar breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu og vilji ekki sjá neitt veiðigjald. Það kann vel að vera en sá sem hér stendur er ekki í þeim hópi. Hins vegar er mjög mikilvægt að við drögum ekki alla sem gagnrýna þetta mál á málefnalegan hátt í þann hóp að vera á móti slíkum breytingum. Það er rosalega ómálefnalegt og það er því miður það sem er að gerast í allt of ríkum mæli í þessari umræðu og víðar.