140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[13:50]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Björn Valur Gíslason) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Ásmundur Einar Daðason ræddi talsvert um veiðigjaldið sem landsbyggðarskatt og að þetta væri aðför að landsbyggðinni, enn ein árásin á landsbyggðina af núverandi ríkisstjórn sem hann er ekki að hæla neitt sérstaklega.

Veiðigjaldafrumvarpið fjallar ekki um þetta. Veiðigjaldafrumvarpið fjallar um að nýta tekjur af veiðigjaldinu til ráðstöfunar á landsbyggðinni. Það stendur berum orðum í frumvarpinu og breytingartillögunum, reyndar í báðum frumvörpunum. Það er sérstaklega tilgreint í frumvarpinu um stjórn fiskveiða hvernig á að skipta tekjum af leigu á aflanum, þ.e. til sveitarfélaga, landshlutasamtaka, til rannsóknar og þróunar í sjávarútvegi sem ég vek athygli á að er alger nýjung og hefur aldrei verið gert í sjávarútvegi áður. Á meðan við erum með rannsóknastarf í öðrum atvinnugreinum höfum við aldrei sett fjármuni til rannsóknar og þróunar í sjávarútvegi þannig að það er verið að fara inn á nýjar brautir þar.

Í öðru lagi er sérstaka veiðigjaldið sem er áætlað að taka af sjávarútvegi á næsta ári einkum ætlað til uppbyggingar á innviðum samfélaganna úti á landi, þá eru sérstaklega tilgreind ýmis samgönguverkefni. Þessir fjármunir eru ekki til ráðstöfunar úti á landi í dag. Þessir fjármunir eru ekki til ráðstöfunar í þessum samfélögum úti á landi í dag. Þetta er nýtt fé sem við erum að taka inn með þessum hætti til að koma í veg fyrir endalaust undanhald sem hefur verið áratugum saman á landsbyggðinni.

Ég bið hv. þingmann að kanna það hvenær hnignun landsbyggðarinnar hófst. Hv. þingmaður veit held ég hvenær hún hófst og hvers vegna það gerðist.

Ég spyr um álit hv. þingmanns á því hvort hann geti ekki verið mér sammála um að það sé nauðsynlegt að auka fjármagn til landsbyggðarinnar og nota veiðigjaldið til þess.