140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[14:03]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Það er hárrétt að þegar ríkisstjórnin kynnti þessa fjárfestingaráætlun var hún kynnt sem einhvers konar stórsókn í byggðamálum. Á síðustu þremur árum höfum við séð stórfellt niðurbrot á landsbyggðinni, frú forseti, í grunnþjónustunni, heilbrigðismálunum og fleiru. Svo koma menn ári fyrir kosningar með einhverja áætlun um það hvernig eigi að ráðast í stórsókn á sviði byggðamála. Þegar ríkisstjórnin með hæstv. utanríkisráðherra í broddi fylkingar hefur gengið svo nærri mörgum byggðarlögum landsins og opinberum störfum hefur fækkað gríðarlega á Norðurlandi vestra eins og ég vitnaði til í ræðu minni áðan (Utanrrh.: Verð ég ekki að bera af mér sakir, í broddi fylkingar?) er frekar ódýrt að koma hingað ári fyrir kosningar og tala um að nú eigi að hefja stórsókn í byggðamálum, nú þegar (Utanrrh.: Ég hef fjölgað þýðendum, ég hef fært störf til landsbyggðarinnar.) við erum komin inn í uppbótartíma. Það er einmitt af þeirri ástæðu sem menn hafa talað fyrir mikilvægi þess að veiðigjaldið renni á einhvern hátt beint út til landsbyggðarinnar ef menn á annað borð ætla að setja það á.