140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[14:05]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Í andsvörum áðan hjá hv. þm. Birni Val Gíslasyni fullyrti hann að með því frumvarpi sem hér lægi fyrir mundi, og ég tel að ég hafi náð þessu nokkurn veginn orðrétt, endurreisn landsbyggðarinnar hefjast af glæstum krafti. Það vekur mann til umhugsunar um það hvaða átök á milli pólitískra sjónarmiða kristallast í raun í umræðum um þetta frumvarp um veiðiskattinn. Óneitanlega tengist það því frumvarpi sem enn þá er fast í atvinnuveganefnd þingsins og lýtur að breytingum á stjórn fiskveiða. Mér þykir vel í lagt af hálfu hv. þingmanns að taka þannig til orða því að mat þeirra sem ætlunin er að byggja upp með er af einhverjum ástæðum allt annað en mat hv. þingmanns sem birtist í andsvörum áðan.

Annar aðilinn, annaðhvort hv. þingmaður og fylgismenn hans á þingi sem mæla fyrir þessu frumvarpi eða forsvarsmenn byggða vítt um land hljóta að hafa rangt fyrir sér eða hvor aðili um sig hefur ekki komið skilningi sínum áfram til hins. Það ber einfaldlega svo mikið á milli þeirra sem tjá sig um áhrifin af þessu að það gæfi öllum skynsömum einstaklingum efni til að setjast yfir málið þó ekki væri nema til að skýra skilning hver annars á því hvað undir lægi.

Það er himinn og haf á milli þeirra sjónarmiða sem birtast hjá þeim hvar svo sem fólk stendur í pólitík. Forsvarsmenn sveitarfélaga landsins hafa lagt allt annan skilning í þetta mál en birtist í málflutningi hv. þingmanna sem mæla fyrir því að þetta frumvarp gangi sem hraðast og best í gegnum þingið. Þetta er verulega slæmt að mínu mati að við skulum þurfa að vera í þeirri stöðu með svo gríðarlega mikið hagsmunamál fyrir íslenska þjóð að skilningurinn á því virðist vera gjörólíkur í allt of stórum hópum þjóðfélagsins. Þetta er mjög alvarlegt þegar maður hugsar til þess í rauninni og ég vil tengja þetta þeim hugmyndafræðilegu átökum sem eiga sér stað í íslensku þjóðfélagi um þessar mundir.

Ég skipa mér í flokk sjálfstæðismanna og deili með þeim lífsskoðunum undir merkjum sjálfstæðisstefnunnar sem leggur traust sitt á það að heilbrigður atvinnurekstur sé best kominn í höndum einkaaðila. Við höfum þar af leiðandi skipað okkur undir merki einstaklingshyggju og séreignarskipulagsins á meðan vinstri hliðin í íslenskum stjórnmálum, nú um stundir Vinstri græn, Samfylkingin og raunar hluti Framsóknarflokksins, hefur talað fyrir vaxandi þjóðnýtingu og ríkisforsjá í ýmsum efnum. Þarna liggur þessi hugmyndafræðilegi ágreiningur sem birtist ágætlega í umræðunni um þessi mál hér og sérstaklega í þeirri viðleitni stjórnarliða sem tala fyrir frumvarpinu um að þeir vilji hafa alla forgöngu um að byggja upp byggðir landsins og atvinnulíf og fá meiri stjórn á því. Ég hélt að það væri þokkaleg samstaða meðal Íslendinga og tel það raunar vera þannig að hornsteinn atvinnulífs lægi í því að einstaklingurinn ætti sér von um ávinning af því að stunda atvinnurekstur. Ég trúi því að minnsta kosti að von einstaklinganna um að búa sér betri lífsskilyrði sé fyrsti, heilbrigðasti og besti aflgjafinn til að standa undir framkvæmdum, keyra áfram framtak og atorkusemi og þessi vilji einstaklingsins leiði til aukinnar framleiðslu í þjóðfélaginu. Þetta er gert fyrst og fremst af þeirri trú einstaklingsins að með þessu pjakki sínu hafi hann og geti skapað betri og góða afkomu fyrir sjálfan sig, fjölskyldu sína, afkomendur, byggðarlagið sitt og landið allt. Þetta tel ég að búi í sérhverjum einstaklingi, þetta liggi í mannlegu eðli og sé í rauninni meðfætt afl sérhverrar persónu. Ég tel að þetta afl sem býr í sérhverjum einstaklingi geti öðru fremur orðið til að leysa úr læðingi viljann til að skapa, viljann til að búa til verðmæti. Ég tel þessu einfaldlega betur komið hjá einstaklingum heldur en ríkisvaldinu. Ég tel að ríkisvaldið og stjórnmálamenn eigi fyrst og fremst að skapa einstaklingunum færi til þess að fá vilja sínum framgengt í þessum efnum, einfaldlega vegna þess að flestir munu njóta góðs af því.

Það mál sem hér liggur undir snýst um það af hálfu stjórnarliðanna sem flytja það, þeirra sem tala meira fyrir ríkisforsjá, að þjóðinni, þ.e. ríkissjóði, eigi að skila réttlátari hluta af sjávarauðlindinni en nú er eða þeir vilja meina að sé í kortunum í dag. Þetta er fallegur frasi og ég vænti þess að í hugum þeirra sem mæla fyrir þessu sé auðvelt að „selja“ fólki það. En skoðum þetta nánar. Það er ágætt að líta til greinar sem birtist í Fiskifréttum fimmtudaginn 7. júní þar sem farið er yfir þetta í tiltölulega einföldu, skýru máli. Ef við skoðum tekjurnar sem verða til í útgerðinni ef við höldum okkur við hana fyrst og fremst, er ágætur mælikvarði þar á þorskígildi sem eru ákveðin verðmæti, mælikvarði til að skipta tekjum. Þetta er hins vegar ekki mælikvarði sem hentar við skattlagningu því að að mati Daða Más Kristóferssonar hagfræðings mæla tekjur af hverju þorskígildi ekki afkomu greinarinnar. En ef þetta er skoðað nánar er mat þeirra sem innan greinarinnar starfa að eftir hrun krónunnar séu tekjur á hvert þorskígildiskíló um það bil 350 kr. Hvernig skiptast þær þegar farið er að greina þær?

Jú, þjóðin eða ríkissjóður og sveitarfélögin fá tæp 18% af þessum tekjum, af þessum 350 kr. eða 62 kr. 116 kr. eða rúmur þriðjungur, 33% rúm fara til starfsmanna í formi launa. Hitt eru skattar. Svo er lífeyrissjóðurinn. Fjórðungur fer í efni og aðföng, 90 kr. Það verður að reikna með afskriftum tækja og búnaðar og síðan þarf að sjálfsögðu að greiða vexti af þeim skuldbindingum sem fyrirtækin bera. Allt þetta er greitt af þessum 350 kr. Hvað stendur þá eftir hjá eigandanum svokallaða sem menn vilja heimta meira af? Það eru 9 kr. Það eru 2,6% af þessum 350 kr. sem standa eftir hjá eigandanum. Og hvað á hann eftir að greiða af því? Hann á eftir að greiða sér arð, hann á eftir að leggja fyrir í lífeyrissjóðinn sem við opinberir starfsmenn höfum þokkalega tryggðan o.s.frv. Það kann vel að vera að þessar 9 kr. þyki há fjárhæð en ég held að það sé nánast útilokað að geta sannfært fólk um það með einhverjum skynsamlegum hætti að skattlagningin á þorskígildiskíló þurfi að verða 70% af því sem úr því er hægt að gera.