140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[14:19]
Horfa

Skúli Helgason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég spurði hv. þm. Kristján Þór Júlíusson hvort skipting auðlindaarðsins hefði verið sanngjörn á milli þjóðarinnar annars vegar og útgerðarinnar hins vegar. Ég spurði ekki um afstöðu hans til kvótakerfisins, við erum alveg sammála um að það sem er gott við kvótakerfið er að það takmarkaði sókn í fiskstofna sem voru ofveiddir á sínum tíma, það hefur gert rekstrarskilyrði betri í þessari grein og að sjálfsögðu leggur sjávarútvegurinn heilmikið til þjóðarbúsins, við erum hjartanlega sammála um það.

Þessi umræða snýst ekkert um það, hún snýst um auðlindaarðinn. Við erum með lög sem segja að þjóðin eigi nytjastofnana sameiginlega. Er þá ekki eðlilegt, rétt eins og í öðrum atvinnurekstri, að eigandinn fái einhvern arð af eign sinni? Það er fest í lög að þjóðin á þessa eign sameiginlega. Það hlýtur að vera sanngjörn krafa að hún fái sanngjarnan hlut í auðlindaarðinum, í þeim arði sem verður til eftir að búið er að borga allan kostnað, búið er að borga laun, búið er að gera ráð fyrir afskriftum o.s.frv.

Þessi skipting hefur verið þannig og var þannig í tíð sjálfstæðismanna í sjávarútvegsráðuneytinu að 0,17% upp í 1,5% skilaði sér til þjóðarinnar í gegnum auðlindaarðinn. Mín spurning var þessi: Er þetta sanngjörn skipting á auðlindaarðinum?