140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[14:21]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Ég tel að í grunninn séu það sanngjörn skipti, ef maður getur sagt sem svo. Í mínum huga eru þetta ekki skipti heldur sameiginlegir hagsmunir þjóðarinnar og þeirra sem vilja vinna í tiltekinni atvinnugrein að hún gangi og gangi sem best. Ég er þeirrar skoðunar að drifkrafturinn í þessu dæmi eigi að koma frá einstaklingum sem vilja standa í greininni og þeir eru misjafnir eins og þeir eru margir. Sumum er þetta einfaldlega ekki lagið og hafa aldrei náð neinum tökum á þessu. Það þýðir ekki að þeir reyni ekki að brjótast inn í kerfið, þeir hafa hins vegar aldrei skilað neinu til þjóðarinnar öðru en tapi. Er það sanngjarnt að menn geti farið inn í greinina og lagt síðan byrðar á þjóðina í framhaldinu? Ég segi nei, það er ekki sanngjarnt, en það eiga allir að fá að keppa í greininni.

Skattheimtan, eins og hún birtist mér í því frumvarpi sem hér liggur fyrir, dregur frekar úr vilja þeirra sem við treystum best til að ná sem mestum verðmætum úr aflanum. Mér finnst ekki rétt — það er mín sannfæring — að nálgast þetta út frá einhverjum sanngirnismælikvarða vegna þess að hann er misjafn, það eru örugglega 63 mismunandi skoðanir í þessum sal á því hvað er sanngjarnt í þessum efnum. Við eigum miklu frekar að leggja þetta niður fyrir okkur í ljósi þeirra staðreynda sem við okkur blasa.

Ég minni á að skattheimta er stundum nýtt til að tempra og draga úr, eins og sykurneyslu eða áfengisneyslu.

Ég óttast að menn séu komnir yfir ákveðin mörk í skattheimtu á þær 9 kr. sem eftir standa af þorskígildiskílóinu gagnvart þeim sem við viljum gefa færi á að vera í atvinnugreininni en ekki síður gagnvart þeim sem við teljum að best séu færir til að starfa í greininni og hámarka arðinn af henni fyrir íslenska þjóð, (Forseti hringir.) eins og margir hverjir hafa gert.