140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[14:30]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Við erum komnir út um víðan völl þegar við erum farnir að ræða um prinsippmál varðandi skattlagningu í þessum efnum. Ég er í grunninn sammála því að það eigi að skattleggja sama hvort heldur það er sjávarútvegurinn eða aðrar atvinnugreinar eftir afkomu tiltekinna greina.

Við erum hins vegar algjörlega á öndverðum meiði með það, ég og hv. þingmaður sem kemur frá Vinstri grænum, á hvaða forsendum við eigum að nálgast atvinnulífið. Ég er þeirrar skoðunar einlæglega að einstaklingum sé betur treystandi til að búa til verðmæti úr auðlind sem er því miður takmörkuð í þessum atvinnurekstri en nokkurn tíma ríkinu eða stjórnmálamönnum. Þar skilur einfaldlega á milli. Ég hef ekki séð, eins og hefur komið fram í röðum sumra stjórnarliða, þann djöful sem býr í moldríkum útgerðarmanni. Ég tel þvert á móti að við eigum að vera stolt af því að hafa einstaklinga sem hafa þá burði til að bera sama hvort heldur það er í útgerð eða öðrum atvinnurekstri að geta skapað verðmæti úr þeim gögnum og gæðum sem þeir koma að og horfa öðruvísi til en við flest. Það er happ Íslendinga í útgerð og öðrum atvinnurekstri að hafa frumkvöðla, einstaklinga sem horfa á veröldina með öðrum augum en við flest. Við eigum frekar að ýta undir en að draga úr þeim kjarkinn. Þetta er mín grundvallarskoðun og þegar mér er mótmælt með því að segja að þetta sé ekki rétt hjá mér þótt við sjáum það endurspeglast í þeim áformum um skattlagningu sem liggja fyrir í þessu frumvarpi, tillögunum um útdeilingu af væntum tekjum sem af greininni stafa, þá er eitthvað mikið að í vinnslu þessa máls. Við eigum ekki að vinna þetta með þessum hætti. Menn hafa vanist því að draga fyrst fisk um borð í skip áður en þeir fara að éta hann.