140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[14:52]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég rakti í ræðu fyrr í dag niðurstöður Landsbankans um afleiðingarnar ef þessi frumvörp verða samþykkt eins og þau voru lögð fram upphaflega. Þar kom í ljós að af 124 fyrirtækjum sem ráða yfir 90% kvótans færu 74 í þrot og að bankinn þyrfti að afskrifa um það bil 31 milljarð. Þá yrði ekki mikill arður af bankanum, eigið fé mundi skerðast þar og leiða til þess að virði bankans mundi lækka. Þetta er því hárrétt athugasemd hjá hv. þingmanni, grunnurinn sem fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar byggir á, annars vegar veiðigjöld og hins vegar að selja hlut sinn í fjármálafyrirtækjum og taka þar út arð, er brostinn.

Eins og ég sagði í ræðu fyrr í dag tel ég að allt þetta samhengi lýsi djúpri vanþekkingu á verkan hlutanna. Ég gef mér að það sé vegna vanþekkingar vegna þess að ekki trúi ég því að ríkisstjórn Íslands setji fram hugmyndir til þess eins að slá ryki í augu fólks. Ég mundi aldrei trúa því upp á núverandi stjórnarherra að þeir settu eitthvað fram sem þeir meintu ekki fullkomlega og að þeir væru að reyna að plata fólk. Því mundi ég aldrei trúa.