140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[15:24]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég veit ekki hvort vert er að gera sér erindi í ræðustól til að fá hv. þingmann til að svara því sem til hans er beint. Annaðhvort virðir hann menn ekki viðlits og svarar þeim ekki, eins og hv. þm. Björn Valur Gíslason hefur mátt þola, ellegar að hann neitar einfaldlega að svara grundvallarspurningum hv. þingmanna, ég nefni þar hv. þm. Skúla Helgason. Sú grundvallarspurning snerist um það hvernig hv. þingmanni fyndist eðlilegt að skipta auðlindaarðinum á milli almennings annars vegar og LÍÚ hins vegar. Það má kannski halda áfram að reyna.

Það frumvarp sem hér er undir er frekar einfalt. Hér er veiðigjaldið til umfjöllunar. Við höfum sagt að eftir að tekið hefur verið tillit til athugasemda sérfræðinga sé eðlilegt að lækka það í 15 milljarða, sem þýðir þá rétt liðlega 30 kr. á hvert þorskkíló sem veitt verður á næsta fiskveiðiári, meðan Sjálfstæðisflokkurinn hefur talað um 10–12 milljarða. Það er því bitamunur en ekki fjár á áhersluatriðum í þessu atriði.

Þá heldur hv. þingmaður því fram að við eigum að semja. Mér hlýtur að hafa misheyrst. Lýðræðislega kjörinn meiri hluti í þinginu hefur lagt fram frumvarp sem hann vill fá samþykkt um fjáröflun fyrir ríkissjóð. Neitar hv. þingmaður því að lýðræðislega kjörinn stjórnarmeirihluti fari með fjárstýringarvald í landinu? Telur hv. þingmaður að hann geti, á grundvelli ágreinings um einhverja 3–5 milljarða í skattheimtu, stöðvað mál hér mánuðum saman með málþófi nótt og dag? Ef hann heldur það, þá verði honum að góðu því að hann fær þá að halda því uppi.