140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[15:28]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin eins langt og þau náðu. Það er út af fyrir sig rétt að fram komu ýmiss konar sjónarmið um frumvarpið eins og það var lagt fram í þinginu. Það hefur farið um það eins og oft og einatt gerist við þinglega meðferð, að tillit hefur verið tekið til þeirra athugasemda. Þeim hefur verið mætt, gjaldið hefur verið lækkað mjög verulega.

Nú er gjaldið orðið svo sanngjarnt að í raun má halda því fram að það sé orðið býsna lágt. Liðlega 30 kr. á kílóið munu ekki fæla nokkurn mann frá því að gera út á sjó og ef markaðurinn, sem hv. þingmaður trúir að leggi rétt verð á hverja vöru, ætti að skera úr um það með því að aflaheimildirnar væru boðnar upp mætti vænta þess að verðið sem menn greiddu ríkissjóði fyrir þær heimildir yrði ekki tvöfalt hærra en það gjald sem hér er verið að leggja til og ekki þrefalt hærra heldur margfalt hærra.