140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[16:14]
Horfa

Atli Gíslason (U) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Skúla Helgasyni fyrir fyrirspurnina. Ég ætla að byrja á að leiðrétta mismæli í andsvari hans. þ.e. að skiptingin er 50:40:10. Þarna urðu mistök, þingskjali var dreift með þessari breytingartillögu með þeim tölum sem hv. þingmaður nefndi sem var síðan leiðrétt.

Já, ég kannast vel við þessa gagnrýni frá fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins og hún var svolítið sérstök á þeim tíma því að fjárlagaskrifstofan á að gefa umsagnir um hvað frumvörp kosta ríkissjóð, hver útgjöldin verða fyrir ríkissjóð. Í þessu tilviki gekk fjárlagaskrifstofan mun lengra, ég hafði ekki séð það áður, og kom fram með lögfræðilegan rökstuðning um grundvöll gjaldsins, sem er ekki hlutverk fjárlagaskrifstofunnar að ég best veit. Ég las þá gagnrýni ítarlega og fór vel yfir hana. Meginhluti gagnrýninnar var að sérlög gætu ekki ákvarðað skattamál. Það varð til þess að í drögum hv. fyrrverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra Jóns Bjarnasonar frá því í nóvember var gerð breyting á lögum um tekjustofna sveitarfélaga til að mæta þessari gagnrýni.

Síðan segir hv. þingmaður: Er ekki eðlilegt að þetta fari fyrst til ríkisins og síðan sé því deilt? Ég gæti fallist á allt slíkt ef það væri trygging fyrir því að því væri deilt á rétta staði, að sveitarfélögin og rannsóknarsjóðurinn nytu þess. Ég hef enga tryggingu fyrir því, hvorki í þessu frumvarpi né í greinargerð með því. Varðandi AVS mun ég svara því í seinna svari mínu þar sem ræðutíma mínum er lokið að sinni.