140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[16:16]
Horfa

Skúli Helgason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svar hans. Mig langar að víkja að meginatriði þessa frumvarps sem er skiptingin á auðlindaarðinum milli þjóðarinnar annars vegar og útgerðarinnar hins vegar. Við höfum dæmi um það úr fortíðinni að skiptingin hefur verið með hreinum endemum og lengst af höfum við séð að 1–2% af auðlindaarðinum hafa runnið til þjóðarinnar, það fór reyndar niður í einungis hálft prósent síðasta árið sem Sjálfstæðisflokkurinn var með sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið en 99,5% af auðlindaarðinum varð eftir í greininni, þrátt fyrir að við séum með lög sem kveða á um að eignarhaldið sé hjá þjóðinni. Ég er ekki viss um að nokkur aðili í atvinnustarfsemi á Íslandi mundi sætta sig við það að fá hálft prósent í arð af eigum sínum.

Hver er sanngjörn skipting á auðlindaarðinum að mati hv. þm. Atla Gíslasonar?