140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[16:17]
Horfa

Atli Gíslason (U) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi síðustu spurninguna sem ég náði ekki að svara, varðandi áhrif AVS, þá lá ekki fyrir lagagrundvöllur fyrir þann rannsóknarsjóð þar sem markmið og reglugerð var sett um hann. Við sem sátum í þessum starfshópi og ráðuneytið brugðumst við því í október og sömdum drög að frumvarpi um sjóðinn þar sem tekið var á þeim gagnrýnisatriðum sem hv. þingmaður nefndi.

Skipting milli þjóðar og útgerðar er með hreinum endemum. Ég vil skoða upphaf og endi þessa máls, eins og ég hef margítrekað í ræðu minni: Hverjar eru forsendurnar? Hvað kemur út úr þessu veiðigjaldi? Hverjum blæðir? Og fá faglega og fræðilega úttekt á því. Í dag er prósentutalan 13,7%, held ég. Ég treysti mér ekki til að svara því fyrr en ég er búinn að meta allar afleiðingar og sjá öll hliðaráhrifin. Ég bendi bara á: Hvaða áhrif hefur veiðigjaldið á tekjuskatt útgerða? (Forseti hringir.) Það er fullt af slíkum spurningum sem því miður er ósvarað.