140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[16:18]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég byrja á því að þakka þingmanninum fyrir ræðuna. Það er ekki laust við að maður sé sleginn yfir þeim upplýsingum sem þar komu fram og voru staðfestar því að meðferðin á hv. þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra Jóni Bjarnasyni þegar hann sat í ríkisstjórn er með slíkum ólíkindum.

Ég tek undir að það var nauðsynlegt að koma þessu heildstætt inn í ræðu í þinginu svo að þetta yrði varðveitt til frambúðar á þingskjölum. Þarna fékk maður heildarmyndina af atburðarásinni sem fór af stað í stríðinu gegn hv. þm. Jóni Bjarnasyni. Þetta er ekki til eftirbreytni, virðulegi forseti, en sýnir kannski hvernig landinu er stjórnað í dag. Þetta er ekki eina málið sem fær slíka meðferð undir forustu hæstv. forsætisráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur, en þetta eru mjög alvarlegar upplýsingar og þakka ég þingmanninum aftur fyrir þær. Ég þakka einnig þau ummæli sem hv. þm. Atli Gíslason hafði hér um að svo virtist að ákveðnum þingmönnum stjórnarflokkanna hefði verið gefið veiðileyfi á hv. þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Mig langar til að leggja spurningu fyrir hv. þingmann af því að hann er lögmaður. Hún varðar þær alvarlegu athugasemdir sem gerðar eru við frumvarpið varðandi það að þar er talið að þetta séu ekki gjöld eins og fram kemur í frumvarpinu og frumvarpstexta, heldur beinn skattur. Hv. þingmaður veit alveg muninn á sköttum og gjöldum, þar er um tvo aðskilda hluti að ræða. Hver er skoðun hv. þingmanns á því að sú skattheimta sem birtist hér sé kölluð gjöld?