140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[17:12]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er sérkennilegur málflutningur sem hér er hafður uppi af hálfu hv. þm. Ólafar Nordal. Hún tekur fiskveiðistjórnarmálið til umfjöllunar sem enn er í atvinnuveganefnd þrátt fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn hafi eindregið lagst gegn því að málin yrðu tekin til umræðu saman. Í öðru lagi kallar hún eftir því að atvinnuveganefnd taki þetta mál á milli umræðna og geri á því úrbætur en á sama tíma standa þingmenn Sjálfstæðisflokksins í ræðustól dag og nótt til að koma í veg fyrir að umræðunni ljúki og málið komist til nefndar þar sem hægt sé að vinna áfram með það. Hér rekst hvað á annars horn enda Sjálfstæðisflokkurinn í hefðbundinni sérhagsmunagæslu fyrir Landssamband íslenskra útvegsmanna. Hann fellst að vísu á það núna að veiðigjald megi vera 10 eða 12 milljarðar. (Gripið fram í.) Sú tillaga sem hér liggur fyrir frá hv. atvinnuveganefnd er upp á 15 milljarða. Sjálfstæðisflokkurinn er því að prútta um einhverja 4 milljarða fyrir LÍÚ og maður hlýtur að spyrja hv. þingmenn hversu marga daga við þingmenn megum vænta þess að þingmenn Sjálfstæðisflokksins standi í ræðustól til að prútta um einhverja 4 milljarða frá íslenskum almenningi til LÍÚ.

Í fyrrasumar stóðu þeir býsna marga daga. Þá voru þeir ekki tilbúnir að viðurkenna að leggja mætti 10 til 12 milljarða á greinina. Þá prúttuðu þeir um 6 milljarða tillögu, sem þá lá á borðinu, og náðu upphæðinni niður í 4,5 milljarða af því að þá töldu þeir að gjaldið mætti alls ekki vera hærra en það. Þeir náðu því að prútta um 1,5 milljarða fyrir LÍÚ.

Það er því eðlilegt að við spyrjum, vegna þess að hv. þingmaður vísaði í forsetakosningarnar, í hversu marga daga megi vænta þess að þingmenn Sjálfstæðisflokksins standi hér fyrir LÍÚ og biðji um að gjaldið verði lækkað um nokkra milljarða í viðbót þegar gróðinn (Forseti hringir.) í sjávarútvegi er í sögulegum hæðum.