140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[17:19]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Ólöfu Nordal fyrir ræðu hennar og þá sérstaklega síðasta andsvarið sem hún var í við hv. þm. Helga Hjörvar. Þar kom fram á einni mínútu allur heili sannleikurinn. Það er einkennilegt hvernig ríkisstjórnin hegðar sér og þá sérstaklega þráhyggja Samfylkingarinnar að rústa hér aðalatvinnuvegi og undirstöðuatvinnuvegi þjóðarinnar sem hefur verið að skila inn þeim skatttekjum til ríkissjóðs sem hafa þó leitt til þess að hér er hægt að halda einhverju gangandi. En þá skal ráðast á það líka.

Mig langar til að spyrja þingmanninn út í ákveðið atriði. Í 77. gr. stjórnarskrárinnar stendur, með leyfi forseta:

„Skattamálum skal skipað með lögum. Ekki má fela stjórnvöldum ákvörðun um hvort leggja skuli á skatt, breyta honum eða afnema hann.“

Þessi stjórnarskrárgrein er mjög skýr. Stangast þetta ekki á við 4. gr. þessa frumvarps þar sem fela á sérstakri veiðigjaldsnefnd það að ákvarða þessa skattheimtu? Þar segir, með leyfi forseta:

„Ráðherra skipar þrjá menn og aðra þrjá til vara í nefnd til fimm ára í senn til að ákvarða sérstakt veiðigjald …“

Það er ekki einasta, frú forseti, að hér sé að mínu mati verið að framselja skattlagningarvaldið út úr þessu húsi til ráðherra, eins og oft er gert með reglugerðarákvæði, heldur á það að fara til þriðja aðila, til nefndar sem ráðherra skipar. Hvað finnst þingmanninum um þá staðreynd?