140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[17:21]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég er sammála hv. þingmanni um að það sé ófært að þetta mál sé afgreitt með þeim annmörkum sem eru á því hvað þetta varðar. Fyrir liggja í málinu fjölmörg álit frá lögfræðingum um það að veruleg hætta sé á ferðum í grundvelli þessarar lagasetningar. Hér er talað um framsal valdsins, um óskýrleika skattlagningar og um afturvirkni. Þetta eru þrjú grundvallaratriði. Meiri hluti atvinnuveganefndar afgreiðir þá gagnrýni sem lögmenn og sérfræðingar hafa sett fram mjög léttilega í áliti sínu og raunar út af borðinu. Ég held að það sé ekki hægt að hafa málið með þessum hætti.

Það var mjög áberandi að hv. þm. Helgi Hjörvar kaus að líta algjörlega fram hjá efnisatriðum málsins þegar hann hóf andsvör við mig áðan. Í staðinn var hann með venjulegan pólitískan skæting. Það skiptir auðvitað máli, hvað sem okkur kann að finnast um þessi mál, að þau séu að minnsta kosti þannig úr garði gerð að af þeim hljótist ekki látlaus dómsmál. Við hljótum að geta náð einhverju samkomulagi um það.

Við erum að benda á þetta og ég í ræðu minni, hreinlega að benda á að ekki sé hægt að afgreiða lagasetningu svona, fara þurfi með málið aftur í nefnd. Auðvitað verður ekki hægt að ljúka neinni umræðu um þetta mál fyrr en menn eru búnir að sjá til lands með lok þingstarfa sem eru öll meira eða minna í vanda vegna óbilgirni ríkisstjórnarinnar þegar kemur að því afgreiða þarf hvert einasta mál sem lagt hefur verið fram, mál sem hafa verið lögð fram á síðustu stundu, mál sem eru ófullburða og ekki tilbúin, og það á bara að halda áfram með þingið langt fram í júní. Ég gæti best trúað því að við verðum hér að störfum á kjördag í forsetakosningunum.